Hvað ef Þorvaldur ætlaði Laugaveginn?

Ritari fékk kvíðahnút í magann í dag þegar hann opnaði póstinn frá Laugavegshlaupinu og las 12 síðna bækling sem gekk út á að útmála Laugaveginn sem algeran tortúr ekki ætlandi öðrum en þrautþjálfuðum úrvalshlaupurum. Efasemdaskýin hrönnuðust upp, leiðbeiningarnar voru þannig að aðeins afburðagreindir einstaklingar skilja þær: skilja eftir töskur þarna, svo verður taskan komin í Bláfjallakvísl, önnur taska verður flutt í Þórsmörk, og ef ég sæki ekki töskuna á tilsettum tíma verður henni hent, en illaþefjandi taskan fær hins vegar náð fyrir augum Reykjavíkurmaraþons. Djísus, er þetta virkilega svona flókið? Biggi sagði að svarið væri einfalt: ekki fara eftir neinum leiðbeiningum, bara hlaupa hlaupið. Einhvern tímann í miðju kvíðakasti sló þessi hugsun ritara: hvað ef Þorvaldur ætlaði Laugaveginn, háskólamenntaður stærðfræðingur sem ræður ekki við að henda reiður á einni flögu? Mér liggur við að segja að þetta hafi róað mig.

Nokkur fjöldi mættur til hlaups á mánudegi, nú er verið að trappa niður. Magga mætt eftir veikindi, Ósk, Dagný, dr. Jóhanna, Helmut, Magnús tannlæknir, ritari, Sigurður Ingvarsson og var fagnað vel eftir glæsilega frammistöðu í hálfu á Akureyri, Biggi, Pétur Einarsson og Guðrún Harðardóttir. Ragnar bættist í hópinn á leiðinni. Helmut mæltist til þess að við færum rólega, ritari féllst á að fara Suðurhlíð. Sjálfsagt hefur Magga haft í huga einhverja sjálfspyndingaspretti í Öskjuhlíðinni, en hún lét ekkert uppi.

Dóluðum þetta af stað, þau fremstu í þessum gefna hlandspreng, en við Helmut skynsamir og rólegir og Maggi skynsamur líka. Það var leiðindaveður, dimmt yfir og engan veginn eins og það væri sumar. Nú nálgast Laugavegurinn og því eðlilegt að menn velti fyrir sér undirbúningi. Á að taka rútuna eða fara á prívatbílum? Á jafnvel að fara degi fyrr og gista einhvers staðar? Biggi undirstrikaði mikilvægi þess að menn væru mættir tímanlega til þess að komast á kamarinn í Landmannalaugum fyrir hlaup. (já, sæll, ég voða spenntur að komast á kamarinn í Landmannalaugum!)

Fólk að synda í sjónum úti fyrir Nauthólsvík og þá var rifjað upp að lítið hefur verið farið í sjó í sumar, enda sumar seint á ferð og sjór enn kaldur. Við Helmut vorum löngu búnir að missa af hlandsprengjunum og héldum því bara áfram með stefnu á Suðurhlíð. Þegar til átti að taka vorum við stemmdir fyrir Þriggjabrúa og dóluðum okkur yfir brúna á Kringlumýrarbraut. Upp brekkuna og ég játa að hún tók eilítið í og maður velti fyrir sér hvort miðvikudagurinn sæti enn svolítið í manni. En þetta hafðist og haldið áfram á Útvarpshæð og um Hvassaleitið yfir brú hjá Kringlu og svo niður Kringlumýrarbraut.

Hér fórum við að setja upp tempóið og fórum Sæbrautina á dágóðum spretti, hjá Hörpu og nýju leiðina um höfnina, Verbúðir, upp Ægisgötu og tilbaka til Laugar. Á stétt voru hlauparar að teygja, og einn syndaselur: Einar blómasali. Hann hafði ýmsar skýringar á reiðum höndum á fjarvistum sínum, það var vinna, það var bíll, það voru Pólverjar sem hann skildi ekki og þannig áfram endalaust. Allt ómarktækt. Menn þurfa að temja sér sjálfsaga og forgangsröðun, annars komast þeir ekki Laugaveginn!

Í potti var rætt um Ironman og hálfan járnkarl í Hafnarfirði um næstu helgi. Ennfremur um nálastungur og nál sem sat föst í Pétri í allan dag og uppgötvaðist fyrst í búningsklefa. Hann sagði frá merkilegri hjólreiðakeppni um Snæfellsnes upp á 161 km sem var svo lýjandi að eftir 7 tíma keppni lagðist hann til svefns og tapaði keppninni! Eða þannig. Afrek engu að síður að hjóla 161 km um Snæfellsnes með brekkum og djöfulskap.

Fundur boðaður at Helmuts og Jóhönnu miðvikudag 19:30 eftir hlaup til þess að skipuleggja og undirbúa. Mikilvægt að helztu jálkar mæti, einkum Jörundur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband