29.4.2011 | 21:35
"Ég er ekki að nenna þessu..."
Í Útiklefa var mannval. Þar voru Flosi, Þorvaldur og Helmut, Magnús og við bættist ritari. Magnús að tæma skinnsokkinn. Helmut var alklæddur og sagði:"Ég er ekki að nenna þessu!" Magnús sem er mannasættir og Pollýanna Samtakanna sagði "Nei, auðvitað nennum við þessu ekki, Helmut minn!" Vel þekktur leikari í Vesturbæ Reykjavíkur var viðstaddur og sagði:"Strákar mínir, ég þekki þetta. Ég er að fara í einleik í kvöld og ég verð að segja að ég nenni því varla." Þarna voru saman komnir miklir laukar hver á sínu sviði og allir játuðu að þeir heyktust frammi fyrir stórum verkefnum, en tækjust á við þau engu að síður af karlmennsku. Og við bárum saman tilfinninguna að standa frammi fyrir públíkúm ellegar að koma sæll og ánægður til Laugar að hlaupi loknu, uppblásinn af adrenalíni og endorfíni.
Fámennt í dag, Ágúst, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Karl Gústaf, Denni af Nesi, Guðrún, ritari, Helmut og dr. Jóhanna. Hlauparar voru komnir á Plan þegar ritari kom út og voru að makka þar saman um leiðir, prófessorinn leyndardómsfullur þegar hann upplýsti að farin yrði leið sem aðeins elztu menn myndu eftir. Leiðin var hins vegar kunnugleg þegar á reyndi: mánudagur, farið upp á Víðimel, út á Suðurgötu og svo út í Skerjafjörð. Þaðan á Nes. Ritari fylgdi fremstu mönnum á tempóinu 5+, sem var ansi hratt. Óþarflega hratt. Hvar eru skynsamir menn þegar þeirra er þörf?
Jæja, þarna komum við í Skerjafjörðinn og snúum svo á Nes, engin vissa fyrir því hversu langt yrði farið. Ritari spurði prófessorinn á einum punkti um það hversu langt yrði farið. "Ja, það fer eftir því hversu langt verður farið." Ef svörin í akademíunni eru í þessum anda þá held ég að það verði langt í að HÍ verði meðal 100 beztu háskóla í heiminum. Tautólógía, útúrsnúningar og hundalógíkk eru sérstakar íþróttagreinar á Íslandi og ætti eiginlega að skrá þær sem keppnisgreinar á Landsmóti Ungmennahreyfingarinnar.
Jæja, Magnús dró ágræðslubrandarann á bakaleiðinni, þennan um þýzka fótinn og amerísku höndina, og íslenzka kálhausinn. Við vorum áfram á hröðu tempói og menn gáfu ekkert eftir, Magnús og Helmut bara flottir á rúmu 5 mín. tempói. Dr. Jóhanna eitthvað að snövla í kringum okkur, en átti ekkert erindi í hóp beztu manna. Það var hlaupið að Hofsvallagötu og haldið þaðan á Nes, ég hafði félagsskap af Magnúsi og við fórum hefðbundna leið en þegar komið var á Nes beið okkar Helmut og bað okkur um að fara ekki lengra, en fylgja sér tilbaka. Við ákváðum að aumkva okkur yfir hann og fylgdum honum tilbaka. Á Eiðistorgi sáum við kunnuglegt ökutæki og skeggjaðan ökumann, var þar kominn sjálfur Benzinn, hokinn yfir útreikningum og bókhaldsfærzlum. Magnús gekk að bílnum reif upp dyrnar og heimtaði svör við því hvaða svindilbrask væri í gangi þarna. Benzinn brást ókunnuglega við og taldi sig ekki vera að fara á svig við lög og reglu. Við áfram. Farin leiðin framhjá húsum þeirra vina, Jörundar og Bigga í Mýri,og fyrir mikla mildi tókst að koma í veg fyrir að Helmut henti grjóti í glugga á húsi við hliðina á húsi Bigga.
Við fórum góða 8,6 km á 45 mín., flottu tempói. Ánægðir með það. Í Pott mætti Jörundur og kvaðst hafa hlaupið að morgni. Honum var þungt í hug og vildi safna saman helztu embættismönnum Samtaka Vorra til þess að taka mikilvægar ákvarðanir og mun viðkomandi berast fundarboð fljótlega. Fundarefni: leynilegt. Að öðru leyti var rætt um fundi hjá ESB, fundahefðir og samskipti okkar við okkar norrænu bræður og systur, bólusótt og fleira því tengt. Fagurt hlaup að baki, á morgun er vormaraþon, en á sunnudag er aðeins opið í Laugardal. Hlaupið þaðan 10:10.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.