20.9.2010 | 20:47
Ágúst flugmaður
Það sást til Jörundar á Ægisíðu um fimmleytið. Hann var hlaupandi og setti stefnuna á Sólrúnarbraut. Ritari mættur snemma til hlaups og sá hlaupara tínast einn af öðrum til Laugar. Á endanum var þetta um 20 manna hópur og mátti þekkja dr. Friðrik, dr. Karl, dr. Jóhönnu, prófessor Fróða og fleiri ágæta hlaupara. Þjálfarar voru báðir mættir og lögðu upp með hlaup út að Dælu og spretti þaðan út á Nes.
Lögðum rólega af stað upp á Víðimel, menn voru léttir á sér og þetta leit vel út. En framan við kínverska sendiráðið upphófst dramatík, það heyrðist í bílflautu og svo sást Ágúst taka flugið og skella á gangstéttinni. Einhverjir töldu sig sjá Friðrik kaupmann bak við stýrið á bílnum sem flautaði, en það fékkst ekki staðfest. Heldur þótti það ólíklegt þegar kaupmaðurinn birtist stuttu síðar hlaupandi og dró okkur uppi. En prófessorinn var allur lemstraður og blóðugur, jafnvel talinn fótbrotinn. En hann stóð upp, harkaði af sér, beit á jaxlinn og hélt áfram. Hugsaði með sér að nú væri e.t.v. rétti tíminn til þess að hringja í Össur.
Við áfram út á Suðurgötu og settum upp taktinn, farið á hröðu tempói út í Skerjafjörð. Dokað þar við en haldið svo áfram vestur úr. Á þessum kafla áttu þau hin að taka spretti, en við Ágúst urðum lítið varir við spretthlaupara. Það var ekki fyrr en við fórum að nálgast Hofsvallagötu að við sáum Gerði og Flosa fara fram úr okkur, en ekki vitum við hvað aðrir voru að gera. Mættum Neshópi á Ægisíðu.
Áfram á Nes og sprettir héldu áfram, þau tóku þéttingana með jöfnu millibili, en ég skokkaði á eftir og prófessorinn tók stefnuna á golfvöll. Farið út að Lindarbraut og þá leið tilbaka. Það var farið að rigna, en að öðru leyti var kjörveður, 10 stiga hiti og logn. Gott tempó á bakaleiðinni. Teygt við laug.
Það kom í ljós að blómasalinn hafði mætt seint í hlaup og hlaupið Eymingja. Hann kvaðst hafa gleymt að borða í dag og var við það að falla í ómegin! Loks var haldið til potts og sagðar sögur. Ágúst mætti allur fleiðraður og blæddi enn úr sárum. Næst er hlaupið á miðvikudag, langt.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.