15.9.2010 | 22:07
Goldfinger-Stíbbla, þekktar stærðir
Þegar norðanvindur geisar og nístandi kuldinn smýgur í merg og bein - þá mæta aðeins hörðustu naglarnir til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Ekki þurfti því að koma á óvart er komið var í Útiklefa að þar voru á fleti fyrir Björn Nagli og Flosi Nagli - ég svipti henginu frá með látum og þeir hrukku í kút. Fljótlega bættist Kári Nagli í hópinn og svo var haldið til Brottfararsalar. Þar mátti sjá S. Ingvarsson, dr. Jóhönnu, Möggu, Rúnar, Jörund, Dagnýju, Frikka, prófessor Fróða, Magga, Albert, Guðmund sterka og Þorvald. Mér létti því ég hafði lofað blómasalanum að kaupa handa honum appelsín og kókosbollu. En hver kemur ekki þegar klukkuna vantar tvær mínútur í hálfsex - nema blómasalinn?
Það er eitthvert metnaðarleysi í gangi hjá fólki þessa dagana. Menn virtust ætla að láta sér nægja Þriggjabrúa enn einn ganginn, Magga horfði á okkur Gústa og sagði: "Þið ætlið líklega eitthvað lengra?" Við urðum leyndardómsfullir í framan og létum lítið uppi. Síðan upphófst mikið pískur okkar í millum og niðurstaðan varð sú að stefna alla vega í Fossvogsdalinn og sjá svo til. Prófessorinn taldi óhjákvæmilegt að fara ekki styttra en 24 km. Það var kalt í veðri, norðangjóla og stefndi í að það gæti jafnvel kólnað með kvöldinu á löngu hlaupi. Meira um það síðar.
Við Ágúst fremstir þegar í upphafi þrátt fyrir að við ætluðum lengra en aðrir. Guðmundur með okkur. Blómasalinn var ekki kominn út þegar hópurinn fór af stað og var þar með mikilvæg markering gerð: menn kunni á klukku og virði brottfarartíma! Ef þeir geta ekki haldið sig við fyrirframákveðnar tímasetningar mega þeir taka afleiðingunum. Það er ekki beðið eftir fólki sem virðir ekki tíma annarra. Við lögðum bara af stað og mátti hann haska sér.
Það blés á Ægisíðunni en aðallega var það hliðarvindur og olli ekki teljandi ónæði. Prófessorinn upplýsti um nýtt hlaup. Í boði er að hlaupa frá Gljúfrasteini nk. laugardag og til Laugar, 28 km. Upphafskona hlaupsins er Melkorka Fróðadóttir og þarf hún fylgisveina til þess að halda uppi skemmtan og fróðleik á leiðinni. Hér með er þessum hlaupamöguleika komið á framfæri og áhugasamir beðnir að setja sig í samband við gamla manninn. Hlaupaleiðin er í raun öfug við það sem farið var á laugardaginn. Góð æfing fyrir þá sem stefna á Haustmaraþon, sem ku vera dr. Jóhanna og blómasalinn, gott ef ekki prófessor Keldensis. Ég hef tekið að mér að þjálfa og byggja blómasalann andlega upp fyrir þetta hlaup - og má segja að hlaup kvöldsins hafi verið liður í þeirri viðleitni. Tilfinningalegt svelti er hluti af þjálfunarprógramminu.
Þetta var létt, við vorum léttir á okkur. Samt liðu einhverjir fram úr okkur, eða mér alla vega, Frikki, Flosi, Siggi Ingvars og Bjössi. Magga spurði hvort ég stefndi á maraþon, ég sagðist vera að æfa blómasalann. Hlaup dagsins væri hluti af prógramminu. Nú er kominn sá tími á haustinu að fólk þarf að fara að klæða sig betur, fara í síðbuxur, síðerma treyjur, handska - og hver veit nema fljótlega dúkki upp bedúínakonan sem Benni tók tvisvar fram úr í fyrra?
Skyndilega var eins og maður væri staddur í Fellini-mynd: okkur mætti ger af konum sem voru áþekkar í útliti og vöktu aðdáun og virðingu viðstaddra: þær voru einbeittar og flottar! Hér var átak á ferðinni.
Það er allt í lagi fyrir fólk sem ekki hefur metnað fyrir meira en Þriggjabrúa að taka góða rispu og fara á fimm mínútna tempói, en ég ætlaði ekki að klikka á svona grundvallaratriðum. Bara að fara rólega á mínu tempói enda var drjúg vegalengd framundan og ætlunin var að fara hana alla hlaupandi. Upp Flanir og framhjá vinnuvélum sem þar eru enn að leggja stíga. Niður hjá kirkjugarði og yfir brú. Hér fórum við að mæta Laugaskokki, m.a. Þorvaldi bróður okkar Flosa. Við Ágúst skelltum okkur niður í dalinn, hann tók Kópavogslykkju, og ég var eiginlega að hugsa um að reyna að láta hann hrista mig af sér og svindla, fara stutt. En þá gerist undrið. Kunnugleg fígúra skeiðar fram úr mér og tekur svig á stígnum fyrir framan mig. Blómasalinn mættur, búinn að spretta úr spori til þess að ná mér. Þarna sannaðist að prógrammið mitt er gulls ígildi! Tilhugsunin um það að ég væri þarna langt á undan var honum óbærileg og hann lagði allt í sölurnar til þess að ná mér.
Við áfram og Ágúst birtist úr Kópavoginum. Við hófum að öskra á hann en hann heyrði ekki neitt. Við öskruðum: "Ágúst! Ágúst! Bíddu eftir okkur!" En hann hélt bara áfram. Við vorum komnir langleiðina að Víkingsvelli þegar hann loksins sá okkur og sneri við til að verða okkur samferða. Það urðu fagnaðarfundir. Saman héldum við upp brekkuna í Kópavoginn og inn í Smiðjuhverfið, Goldfinger, undir Breiðholtsbraut og áfram upp í Breiðholtið. Hér héldum við Ágúst hópinn, en blómasalinn var farinn að dragast aftur úr. Kvaðst hann ekki hafa etið um daginn. Við sögðum að það væri ekki fræðilega mögulegt, hvorki að hann hefði gleymt að borða né verið lystarlaus.
Við skeiðuðum þetta áfram upp að Stíbblu, hér skildi leiðir, Ágúst hélt áfram upp að Árbæjarlaug en ég fór yfir á Stíbblu og hélt tilbaka niður úr. Ákvað að fara frekar Fossvoginn en Laugardal og Sæbraut vegna norðanáttarinnar, hún hefði eyðilagt hárgreiðsluna mína. Leið vel alla leið, nóg að drekka og fann alltaf vatn til að bæta á mig. En á þessari leið fór að kólna og ekki bætti úr skák að þessi hlaupari er vanur að svitna svolítið á hlaupum, og svitinn kólnar í veðri eins og var í kvöld.
Ekki gerðist tíðinda á leiðinni tilbaka og ekki varð ég var við félaga mína. Bjóst alltaf við að blómasalinn kæmi siglandi fram úr mér, hann er vanur að vera orðinn heitur eftir 15 km og sigla fram úr manni, en ekki í þetta skiptið. Ég var einn alla leið, en tók góðan þétting í Fossvogsdalnum og fór hratt yfir. Ekki sló ég af er komið var í Nauthólsvík og þá leið tilbaka. Ég skildi ekki hvað var að gerast. "Hvað er að gerast?" hugsaði ég, "af hverju get ég ekki haldið aftur af mér?" Ekki veit ég skýringuna, en það var engin leið að ráða við þessa hlaupagleði, það var ekki um annað að ræða en láta gamminn geisa.
Assi var orðið kalt við flugvöll og á Ægisíðu! En ekki var slegið af, hlaup klárað með bravúr. Stuttu eftir að ég kom til Laugar kom Ágúst hlaupandi og hafði farið sömu leið tilbaka og ég. Nokkru síðar kom svo blómasalinn og hafði farið um Laugardal og Borgartún og þótt kalt! Menn voru að tínast úr Laugu þegar við komum, en við teygðum um stund og fórum svo í pott og ræddum um næstu hlaup. Leyfi ég mér að árétta tillögu prófessorsins um hlaup laugardagsins, en ég veit ekki um nánari tímasetningu. Eitt af þessum ánægjulegu hlaupum sem enda betur en ætla mátti upphafi (ég var varla að nenna þessu, satt bezt að segja!). 22 km lágu.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt 16.9.2010 kl. 06:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.