Sól og sjór

Fagurt veður á mánudegi, en of heitt til að hlaupa. Það vantaði fjölda röskra hlaupara, þar á meðal Bjössa, Benzinn, Gústa, Magga, blómasalann, Þorvald, Kalla, Sigga Ingvars, Ósk, Hjálmar, Benna, Dagnýju, dr. Friðrik... og fleiri og fleiri og fleiri. Sumir ætluðu í Ármannshlaupið á morgun og fóru því bara Hlíðarfót rólega. Eða það sem þeir kalla rólega, 5 mín. tempó.  Það eina sem komst að hjá þessum hlaupara var sjórinn. Það yrði farið í sjó í Nauthólsvík hvað sem raulaði og tautaði. Farið fremur hratt út, 5:20. Fylgdi þeim dr. Jóhönnu og Bigga inn í Nauthólsvík, nema hvað Biggi tók þá skelfilegu ákvörðun í Skerjafirði að taka spretti með mági sínum. Væ dú æ hev a bed fílíng abát ðis? Uppskrift að meiðslum. Var enn þreyta til staðar eftir velheppnað laugardagshlaup þar sem ritari hljóp án aðstoðarmanns, án úrtölufólks, án músa?

Í Nauthólsvík var múgur og margmenni í sjónum og ég sleit af mér fötin og skellti mér í svala ölduna. Þoli ekki að sjá vatn þá verð ég að afklæðast og taka dýfu. Þarna fór fram þessi hefðbundna núllstilling allra kerfa. Fór svo áfram um Flanir og Suðurhlíð, upp að Perlu, niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og þannig áfram á góðu tempói. Hitti Bigga og Jörund á Plani. Þá voru flestir hlauparar þegar komnir til Laugar. Setið um stund í potti og rætt um veikindi. Hvernig geta t.d. afrekshlauparar sem hafa hlaupið mörg hundruð kílómetra í Sahara verið veikir í kvefpest um hásumarið? Þetta fannst viðstöddum óskiljanlegt.

Framundan átakahlaup á miðvikudag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband