Að loknu löngu hlaupi á laugardagsmorgni

Hlaup reyna fyrst og fremst á sálrænan styrk manna. Spurt er: ertu maður eða mús? Á þetta reyndi í hlaupi dagsins. Mættir allir frambærilegustu hlauparar Samtaka Vorra: Flóki, Magga, Hannes, Snorri, Ragnar, dr. Jóhanna, Jóhanna hin, Ólafur ritari, Rakel, Flosi - og Rúnar á reiðhjóli. Sumir eru í prógrammi fyrir Laugaveginn eða fyrir RM, það átti að fara langt, mislangt þó. Undirritaður ætlaði að fara um 20 km.

Það er fljótsagt að hópurinn tvístraðist nánast þegar í upphafi og maður var fljótlega einn með sjálfum sér. Fólk fór líka í ýmsar áttir, í stað þess að halda hópinn og þreyta hlaupið sem félagshlaup eins og hefð var um hér áður fyrr hjá Samtökum Vorum. Ég var þreyttur og þungur þegar í upphafi og taldi víst að þetta yrði erfitt. Ég fór sömu leið fyrir viku síðan og það reyndist mér eiginlega um megn. Í þetta skiptið hafði ég þó engan með mér sem taldi úr mér kjark og hægði á mér Hér var það aðeins ég að kljást við sjálfan mig. Enda fór svo að ég hljóp "inn í þreytuástandið" og splundraði því - betur get ég ekki lýst því sem gerðist. Ég leyfði aldrei þreytunni að vinna bug á mér en hélt áfram og gaf bara í ef eitthvað var.

Þannig var farinn Fossvogur og Viktor, yfir Breiðholtsbraut, niður að Elliðaám og svo upp dalinn. Þar er mikill og grænn gróður og hreint yndislegt að vera á ferð á laugardagsmorgni í algjörri stillu, úðaregni og 12 stiga hita. Gerist ekki betra. Fór alla leið upp á Stíbblu og yfir hana, tilbaka niður hjá Rafstöð. Setti svo stefnuna á Laugardalinn. Er þangað kom sá ég Flosa framundan mér, hann hafði farið svipaða leið og ég, en eitthvað styttra. Sæbraut, Mýrargata, Ægisgata, Hofsvallagata. Leið vel á eftir og spjallaði við Jóhönnu og Flóka í potti.

Þannig má segja að þótt þreyta og þyngsli séu til staðar má vinna bug á því ef sálarstyrkur er nægur og engin mús með í för sem er með úrtölur. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband