Sex í sjó

Það var föstudagur. Ritari mætti snemma í útiklefa og fann þar á fleti fyrir Þorvald Gunnlaugsson. Við skiptumst á upplýsingum um hlaup, fólk og fyrirsjáanlegar skemmtanir. Svo mættu þau hvert af öðru: dr. Jóhanna, Bjössi, Maggi, Kalli kokkur, Einar blómasali, Jörundur og Biggi. Ótrúlega vel mannað hlaup og lagt upp í góðviðrisblíðu, menn eru stundum villugjarnir í upphafi en það var leiðrétt, dr. Jóhanna sagði af myndugleik þegar menn gerðu sig líklega að snúa niður á Ægisíðu: "Hér er farinn Nesrhingur á föstudögum!" Meira þurfti ekki til og menn fylgdu forræði hennar og sneru upp Hofsvallagötu, farið upp á Víðimel og þaðan vestur úr út í Ánanaust.

Þetta var ótrúlega hægur hópur í dag, svo mjög að ritari var fremstur á hægu tölti og þótti ekki góð tilfinning að leiða hóp slíkra afbragðshlaupara á hraða sem mátti jafna við göngu. En þetta var allt í lagi, framundan var sjór. Þvagan nuddaðist áfram eins og í kiljanskri skáldsögu og áður en vitað var af blasti ströndin við með öllum sínum freistingum. Við vorum fremstir hér, ritari og jóginn, drifum okkur af fötum og skelltum okkur í svala ölduna. Svo komu þau hvert af öðru, dr. Jóhanna, Bjössi, Kalli og blómasalinn og dýfðu allir sér í sjóinn svo að full böðun telzt. Það voru sumsé sex hlauparar sem fóru í sjó, aðrir hlupu framhjá, ekki örlaði á áhuga á að berja þetta fáklædda fólk augum.

Áfram um golfvölll, Kalli, dr. Jóhanna og ritari og Biggi á eftir okkur, fór þó fljótlega fram úr. Krían var friðsæl og lét okkur í friði, svo að nú ætti að vera óhætt að fjölga ferðum um golfvöll. Við drógum uppi Einar og Bjössa og áttum samleið tilbaka til Laugar. Góð stund í potti með sögum Bjössa.

Síðar um kvöldið hélt Jörundur veizlu að heimili sínu, grillaðar pylsur í hellirigningu. Skrafað og skemmt sér fram á kvöld.

Næsta hlaup: laugardag kl. 9:30 frá Vesturbæjarlaug.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband