Sumardagshlaup frá Laug til Laugar

Sumardaginn fyrsta er jafnan hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Af þeirri ástæðu var ritari mættur til Laugar stundvíslega kl. 10 og var hissa að sjá engan af félögum sínum á staðnum. Hafði að vísu séð til Jörundar hlaupandi á Hagamelnum, líklega 16 km hlaup. Sendi blómasalanum boð um hlaup 10:10, en hann kaus að hunza boðið, kvaðst vera að vinna! Mjög líklegt! Hefur trúlega verið mættur á stuttbuxum í skrúfgönguna frá Hagatorgi. Þarna var æskufólk úr sunddeild KR að selja kaffi og vöfflur til stuðnings starfi sínu. Mökkur af sundgestum á Plani, aðallega gamalmenni. Ég tíndi á mig hlaupagírið í þögn og lagði í hann í góðu veðri, stillt, sólskin en frekar svalt. Ekki fyllilega ákveðið hvert haldið skyldi, en áhugi á Goldfinger. Þetta yrði leikið af fingrum fram.

Fáir á ferð, þrátt fyrir að veður byði upp á frábæra útiveru. Ritari fann á sér að hann ætti inni fyrir löngu og fór að hugsa til brekkunnar upp í Smiðjuhverfið í Kópavogi. Hlaup gekk vel og kunnuglegar slóðir að baki. Búið að opna fyrir vatnsfonta víða á leiðinni. Er komið var niður í Fossvoginn blasti við mannhæðarhá buna úr nýjum fonti og mætti buna annars staðar taka mið af því.

Farið upp úr Dalnum og um Smiðjuhverfi, yfir í Breiðholt, Elliðaárdal og upp að Laug. Dokað við og fyllt á brúsa. Svo aftur niður úr. Yfir Elliðaár, undir Breiðholtsbraut og um Laugardalinn tilbaka. Ótrúlega fáir hlauparar á ferli í þessu góða veðri, e.t.v. hafði ÍR-hlaup eitthvað með það að gera. Það var lokið við hlaup með glæsibrag og þreyttur en ánægður hlaupari sem skellti sér í pott á eftir.

Næst trúi ég að hlaupið verði á morgun, föstudag, kl. 16:30.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband