Skeggsöfnun stendur yfir - framlög óskast

Nei, maður segir svona. Þegar ritari kom hjólandi á hjólfáki sínum framhjá októgónu blokkinni þar sem hann Guðni bjó (býr?) og fór inn á bílastæðin sá hann Bjarna Benz sem var nýkominn og var að huga að bifreið sinni. Útundan augnlokunum á ritara sást til bifreiðar, ef bifreið skyldi kalla, sannkallaðs bílhræs, og þykkur reykjarmökkur inni í bílstjórarýminu og engu líkara en að bein leiðsla lægi frá útblástursröri bifreiðarinnar og inn í stjórnunarklefa hennar. Ritari hægir á sér, en sér sér til skelfingar að bíllinn eykur ferðina og tekur stefnuna beint á þennan ríkisstarfsmann. Með naumindum tekst að forða stórslysi og bíllinn kemst loks í örugga höfn nokkurn veginn milli strika. Bjarni Benz er orðinn trítilóður yfir þessu framferði bílstjórans, ræðst að bílhurðinni, rífur hana upp og þrífur til bílstjórans. En hver kemur þá í ljós? Er það ekki sjálfur blómasalinn illa vankaður af útblástursgufum, og var reikull í spori er hann loks náði að fóta sig á malbikinu fyrir framan Vesturbæjarlaug.

Jæja, blómasalinn slapp við líkamsmeiðingar í þetta skiptið, en það mátti litlu muna. Er inn var komið mætti ritari Bjössa kokki. Við horfðum ánulega hvor á annan, báðir að safna yfirvaraskeggi í þágu krabbameinsleitar í eistum karla. Björn hefur fengið meinlegar athugasemdir heima fyrir út af "burstanum" sem hann er kominn með, en ritari getur bara upplýst um almenna aðdáun og ánægju á sínum fronti. Hins vegar er óvíst hvort þeir minna frekar á Pólverja eða Village People. Farið út í Útiklefa og klætt sig. Þar voru Benzinn, Bjössi, blómasalinn og ritari - og þar ríkti einskær gleði. Í Brottfararsal bættust við prófessor Fróði, S. Ingvarsson, Ragnar, Jörundur, og fleiri, samtals 10 hlauparar. Jörundur gat upplýst um það að hann væri sannkallaður lífgjafi. Í dag hefði hann komið heim og við blasað lögregla að stumra yfir meiddum ketti. Löggan gerði sig líklega til þess að moka kettinum upp með kíttispaða og fjarlægja hann, en Jörundur greip inn í og kvaðst þekkja þennan kött. Þetta væri köttur nágrannans. Tók hann köttinn í sína vörzlu og færði Birgi og fjölskyldu köttinn síðar. Er þetta sami aðili og hefur árum saman migið og skitið undir pallinn hjá Jörundi og framtak hans þeim mun merkilegra. Síðdegis hafði svo Biggi samband og sagði að kötturinn væri að braggast.

Jæja, þetta átti nú ekki að verða frásögn af köttum, en stundum æxlast samtöl bara svona. Jörundur var ánægður með dagsverkið og gat vel við unað. Föstudagur og við fáum að ráða okkur sjálf. Áður en við náðum að hafa okkur af stað kom Melabúðar-Frikki á Plan og veifaði flösku með bleikum orkuvökva. Einhverjir þefuðu af drukknum, en töldu innihaldið ekki til þess fallið að efla styrk og þrótt fyrir hlaup. Frikki ætlaði aldrei þessu vant að fylgja fyrirmælum sjúkraþjálfara og hvíla sig. Við dóluðum okkur af stað og fórum niður á Ægisíðu. Veður áfram hreint með eindæmum, hiti 7 stig, nánast logn og uppstytta.

Það var ung stúlka með í för í dag sem ég hef ekki nafnið á, en hún virtist viðkunnanleg og vel hlaupandi. Höfðum við hinir betri hlauparar fullt í fangi með að gæta hennar fyrir óvandaðri hlaupurum. Hópurinn skiptist fljótlega upp samkvæmt venju, og vorum við hinir skárri hlauparar í fararbroddi, ritari, prófessor Fróði, S. Ingvarsson, Benzinn og stúlkan. Fórum á á að gizka 5 mín. tempói og jukum bara í ef eitthvað var. Aldrei þessu vant var lítið rætt um áfengi, en það er annars aðalumræðuefnið á föstudögum. Eitthvert lítilræði af baktali og illmælgi, en allt í góðu og velmeinandi ásetningur að baki. Spurt var: hvar er Flosi, hvar er Þorvaldur? En þessir hlauparar hafa ekki sézt mikið alla vikuna.

Farið hefðbundið um Hi-Lux og brekkan góða tekin léttilega. Sigurður týndur. Við áfram um kirkjugarð og upp í hverfið hjá Öskjuhlíðarskóla. Veðurstofa, Saungskóli og þau dæmi öll. Sigurður fundinn. Við skiptumst á að hafa forystuna, ritari, prófessorarnir, Benzinn og stúlkan, en þegar komið var að Blindraheimilinu þá hurfu þeir fremstu og ritari fór að herða hlaupið. Hér var tempóið anzi hratt. Farið sem leið liggur yfir Miklubraut (biðum óþarflega lengi á ljósum) og áfram um Klambra. Hlemmur og Sæbraut og þannig áfram. Þegar ritari kom á feiknarhraða suður Hofsvallagötu mætti hann Rúnari þjálfara og Benedikt hlaupara, aldeilis grallaralausum og hortugum, þeir reyndu að hefta og trufla för ritara með óforskömmugheitum, en hann rétti út járnhnefann og þeir heyktust á hrekkjunum.

Það er alltaf gaman í potti þegar líður á vor, nú varð óvenjufrjó umræða um matargerð, enda meistarakokkurinn Bjössi á staðnum, og áhugakokkurinn Einar ekki langt undan. René mætti í pott óhlaupinn og gat bætt í umræðu um mat, enda ættaður frá Toskana-héraði á Ítalíu. Menn lögðu drög að matseðlum kvöldsins, sem hljómuðu hver öðrum áhugaverðari. Í fyrramálið munu einhverjir hlaupa langt, aðrir fara á sunnudag. Nú er toppað, lágmark 35 km. Er þetta ekki frábært?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband