"Hin sælan er betri."

Fyrirsögnin er sótt í ummæli sonarins þegar spurt var hvort hann vildi frekar fara á árshátíð eða helga sig sundæfingum. "Það má sleppa þeirri skammvinnu sælu sem árshátíðin er - hin sælan er betri." Átti þá við rússið sem menn fá af stífum æfingum. Segja má að þetta hafi verið einkennisorð þeirra hlaupara sem hlupu langt í dag samkvæmt hefð - það voru þeir Ólafur ritari, Einar blómasali og prófessor Ágúst, sem gat slitið sig frá Atacama maraþoninu í sjónvarpinu. Aðrir mættir til hlaups á þessum degi: Jörundur, Bjössi, Eiríkur, Magnús, Rúnar, Margrét, Ragnar, Kalli, Kári, Melabúðar-Friðrik og líklega einhverjir fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn. Orð var haft á hve fáir væru mættir til hlaups í vorblíðunni, en veður var með eindæmum flott.

Það var vandræðagangur á Plani, einhverjir ætluðu að fara 12 km vegna þess að framundan er Powerade-hlaup á morgun, fimmtudag, sem einhverjir ætla í. En aðrir hvísluðu um langt og gættu þess að láta þjálfara ekki heyra: "24?" "Nei, 27" Jæja, það kæmi allt í ljós hvað yrði úr hlaupi.

Bjössi að fara á stúfana á ný eftir mikla fjarveru vegna meiðsla. Að þessu sinni var farið afskaplega rólega af stað, utan hvað hefðbundið æði rann á ónefnda Parísarfara og þeir hurfu fljótlega. Við hinir tókum lífinu með ró. Það var spenna í mannskapnum enda langt framundan, maður sá Fossvogsdalinn, Kópavogshæðir, Breiðholtið fyrir sér í huganum og fann jafnframt lífsmagn jarðar og vorangan í lofti, fuglasöngur í trjám. Endurnýjun lífsins að hefjast - enn á ný. Þetta eru hinir ákjósanlegustu tímar á hlaupaárinu, vorið og sumarið.

Maður fylgdist svosem ekki mikið með því hvað varð um aðra, en við blómasalinn og prófessorinn héldum áfram í Fossvoginn. Það sló mann hversu fáir hlauparar voru á ferli, eina skýringin er sú að menn ætli almennt í Poweradið. Ágúst tók hefðbundnar slaufur en við Einar héldum áfram. Hann náði okkur áður en farið var upp úr dalnum. Þegar við fórum undir Breiðholtsbraut varð ritara á orði, að Flosi hlyti að verða stoltur og ánægður fyrir okkar hönd í sínum veikindum með þetta langa hlaup sem þreytt yrði í dag. Óðara var hann grunaður um gæzku og talið víst að hann myndi senda bróður sínum sérstakt skeyti til þess að kvelja lasinn manninn sem missir af góðu og löngu hlaupi. En svo bætti Ágúst við: "En hugsið ykkur hvað hann verður ánægður þegar hann heyrir hvað ég fer langt í dag, því ég ætla upp að Breiðholtsbraut!"

Einar hlýtur að hafa verið meðvitundarlaus öll skiptin sem við fórum upp úr Breiðholtinu, hann var fyrst í dag að átta sig á því að mamma Gústa byggi í Stekkjunum þar sem við förum alltaf um í hinum lengri hlaupum. Þarna gaf hann í og skildi okkur eftir.  Sem er allt í lagi því að hann er sá sem fer til Parísar, ekki við. Farið framhjá Stíbblu og alla leið upp að Árbæjarlaug, nema hvað Ágúst hélt áfram upp Ellliðaárdalinn og í brekkurnar þar. Við fengum okkur að drekka við Laug og horfðum í kringum okkur, en héldum fljótlega tilbaka áður en við stirðnuðum. Hratt niður dalinn og brekkuna hjá Rafveituheimilinu, yfir árnar.

Hér leyfði ég blómasalanum  að halda áfram á sínu tempói, en fór að draga mig í hlé, enda búinn að gera mitt í kvöld, fylgja honum á góðu tempói fyrstu 14 km. Eftir þetta var það bara spurning um að komast tilbaka skammlaust. Það var farið að kólna og smásaman fór maður að stirðna upp, þá varð erfiðara að hreyfa sig. Vökvun góð, appelsínusafi blandaður í vatni. Ágætur kostur. Ég missti sýnar á blómasalanum við Kringlumýrarbraut og dólaði mér tilbaka á eigin tempói eftir það. Tókst það nokkurn veginn. Teygt í Móttökusal og spjallað við fólk, Er upp var staðið kom í  ljós að við blómasalinn höfðum farið 24,4 km - en Ágúst 28,4. Megu vér allir vel við una. En þetta er ekki búið, meira á morgun, en þó einkum á föstudag, hefðbundið hlaup þá er 12 km. Vel mætt!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband