Framan við skjáinn

"Hvar er Ágúst?" var spurt. Siggi Ingvarss. sagði að hann hefði plantað sér framan við sjónvarpið til þess að horfa á eyðimerkurmaraþon sem þreytt er þessa dagana í Chile. Maraþonið heldur áfram alla vikuna, og prófessorinn mun ekki róta sér fyrr en því er lokið. Því sést hann að líkindum ekki utandyra aftur fyrr en í næstu viku. Ágætlega var mætt, og af báðum kynjum í þetta skiptið. Maður nokkur kom að máli við ritara og kvartaði yfir því að vera ekki rétt nefndur í frásögn. Einhver hafði laumað því að mér að hann héti Haukur og væri kenndur við Húsavík, en hið rétta er að hann heitir Haraldur og leiðréttist það nú.

Þjálfarar lögðu til að farið yrði hægt út að Skítastöð og svo sprettir á eftir. En menn leggja misjafnan skilning í hugtakið "hægt" - þegar á Suðurgötu var komið rífandi tempó í hlaupara sem hélt bara áfram að aukast. Við flugvöll fór blómasali að derra sig og tók fram úr ritara. Ritari, sem er að aðstoða við þjálfun blómasalans fyrir París, fór léttilega fram úr þeim feita og hrópaði jafnframt: "Koma svo, feitabollan þín!" Hvatning af þessu tagi hefur jafnan virkað vel. Margrét, sem var stödd nálægt okkur hélt að ég væri að kalla á hana og tók því ekki vel að fá þennan stimpil.

Í Nauthólsvík stanzaði hópurinn og fór inn á stíginn hjá Hlíðarfæti. Þar voru teknir 10-20 200 m sprettir. Ritari hélt hins vegar áfram og fór Þriggjabrúahlaup á ágætu tempói. Hann var einn alla leið og því er sosum ekki frá neinu merkilegu að segja, öðru en að veður var aldeilis frábært og maður fær reglulega vortilfinningu af því að vera úti í svona veðurblíðu.

Á Plani hitti ég Rúnar og Frikka og fljótlega kom Egill Helgason úr Laug og tók upp spjall við okkur. Hann hefur ákveðin áform um að snúa á ný til hlaupa, en hleypur enn um sinn innandyra í Ræktinni á Seltjarnarnesi. Upplýst að hann ætti 1:30 í hálfu maraþoni, sem er líklega með beztu tímum sem þekkjast í Samtökum Vorum.

Teygt vel úti sem inni og rætt um vikuna sem framundan er. Lagt á ráðin um hlaup í fyrramálið kl. 05:55, rólegt á miðvikudag, Powerade-hlaup á fimmtudag og langt á sunnudag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband