Hlaup með hægasta móti vegna færðar

Við hittum Magnús í Brottfararsal, en hann var ekki kominn til að hlaupa. Kvaðst ætla að synda mikið. Hann hefði farið að hlaupa í gærmorgun, laugardag, þegar afreksfólk hleypur og hann bara gert eins og venjulega, elt hina. Áður en hann vissi af var hann kominn inn í Víkingsheimili og endaði á því að fara eina 17 km - hefði svo legið óbættur það sem eftir lifði dags. Í dag teldi hann sig geta hvílt sig (fréttist að vísu af honum sofandi í messu í Neskirkju síðar um morguninn, en það er önnur saga). Maggi fór sumsé ekki með okkur í dag. Þeir sem hlupu voru Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Ólafur ritari og Einar blómasali.

Færið var afleitt í dag, snjór yfir öllu, flestir gangstígar óruddir og þar sem ekki var snjór var klaki eða slabb. Nokkuð stríð norðanátt og því ekki kjöraðstæður til að hlaupa. En sunnudagshlaupin eru hálfgerð helgistund og þeim sleppa menn helzt ekki, sakir þess fróðleiks og þeirrar upplýstu umræðu sem þá fer fram. Rætt var um nýlegar jarðarfarir, minningargreinar, tilviljanir og kistuburð. Blómasalinn fór snemma að tuða um að fara Laugaveg vegna þess hversu óhagstæð vindáttin var. Öðrum fannst ekki tímabært að ræða slíkt þegar á Ægisíðu og hlaup nýhafið.

Færðin gerði það að verkum að hlaup sóttist afar seint, svo seint að margsinnis var stoppað og gengið til þess að leyfa tímajöfnun, enginn skilinn eftir. Menn höfðu lesið viðtal við Bónuskaupmann í DV og þótti lítið til þess koma, maðurinn væri að reyna að afla sér samúðar þegar hann ætti enga skilda. Gerður stuttur stanz í Nauthólsvík og spáð í byggingar, en haldið áfram þegar menn voru farnir að stirðna upp. Í kirkjugarði voru sagðar fréttir af síðustu símtölum á meðan við töltum upp brekkuna. Á Veðurstofuhálendi var snjórinn í hnédjúpum sköflum. Áfram var kjagað.

Alltaf skal Klambratúnið verða að þrætuepli, rifist um hvaðan nafnið væri komið, hvað klambrar eru og hvað eðlilegt væri að túnið héti. Fátt ef nokkuð um óreglufólk á Rauðarárstíg, beygt niður Laugaveg, enda var blómasalinn búinn að þrástagast á því allan tímann að við skyldum fara þá leið. Enn gleymdist að telja tómu verzlunarrýmin, sem er kannski ekki svo skrýtið því að þeim hefur fækkað verulega á undanförnu ári. En á Laugavegi var gangstéttin að mestu auð og þá brá svo við að hlaup þyngdist. Í Bankastræti hlupum við fram á Egil Helgason sem tók ekki undir það sjónarmið hlaupara að það væri aktúellt að bjóða þeim í Silfrið, en nefndi hins vegar að hann væri á leið tilbaka í hlaup og hann stefndi að því fljótlega að skilja okkur eftir.

Enn var hlaupið um minningarlund Víkings á horni Túngötu og Garðastrætis, þar sem Ó. Þorsteinsson útskýrði hvar koma ætti minnismerki um stofnun Víkings fyrir, jafnframt því að skipulegt verður hlaup Sumardaginn fyrsta og tveir einstaklingar gerðir að heiðursfélögum. Áfram haldið og endað á Plani. Teygt lítillega. Í potti var súperádíens, Baldur, menningartengill Samtakanna og sér um að halda okkur upplýstum um tónleika og leikhús. Hann gagnrýndi að Ólafur Þorsteinsson vill helzt bara sjá Harrý og Heimi og Skoppu og Skrítlu í leikhúsi. Gerpla fékk góða umsögn, svo og Faust. Í lok potts kom Birgir jógi og fóru menn þá að ræða kanínur og kanínuát. Birgir söng við messu í Neskirkju í dag og er heimildarmaður um framferði kirkjugesta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband