Hlaupasamtökin eru hjálparsamtök

Þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst. Þetta reyndu þegnar landsins í dag þegar Hlaupasamtök Lýðveldisins hlupu frá Vesturbæjarlaug austur um byggðir. Svo var mál með vexti að nokkrir hlauparar, ekki mjög margir, söfnuðust saman til hlaups rétt um 17:30. Þrjú prógrömm í gangi: Stíbbla, Þrjár brýr og svo sprettir. Hópurinn fór saman austur Sólrúnarbraut og að Skítastöð. Þar var ekki staðnæmst, heldur haldið áfram á 5 mín. tempói. Nú vildi svo til að ritari hékk í fremsta fólki. Ekki nóg með það, hann kvartaði yfir að það væri að þvælast fyrir sér, skaust svo fram úr við fyrsta tækifæri og hélt í humátt á eftir blómasalanum sem var langfremstur. Það er til lítils að vera að þjálfa einhvern fyrir París ef maður nær ekki að fylgja honum.

Það var fremur svalt í veðri og einhver vindur og eins gott að vera vel klæddur. Haldið áfram austur úr eftir Nauthólsvík á hröðu tempói og hér fór maður fyrst að verða var við aðra hlaupara, próf. Fróða, Flosa, Jóhönnu og Hauk. Þau tvö síðastnefndu fóru ásamt okkur blómasalanum upp hjá Bogganum og skammt undan var Albert. En þau fóru mun hraðar en við og voru horfin áður en við vissum af. Við fórum þetta hefðbundna yfir Bústaðaveg, upp hjá Útvarpshúsi, yfir Miklubraut og tókum stefnuna framhjá Fram-velli. Þar reyndi á hjálpsemi hlaupara. Við sáum bíl sem var í vandræðum undir brúnni undir Miklubrautina, bíllinn ógangfær og ökumaður aleinn að reyna að ýta honum. Hér kom góðmennið upp í Einari og hann heimtaði að við kæmum þessum ökumanni til hjálpar. Bílar óku hjá og enginn gerði sig líklegan til þess að aðstoða. Þetta var ungur maður sem hafði fyllt á bíliinn og lent í vandræðum í beinu framhaldi. Einar reif upp vélarhlífina og byrjaði að juða í geymistengjum, við það fóru öll ljós að blikka og stuttu síðar rauk bíllinn í gang og ökumaðurinn gat haldið leiðar sinnar.

Albert varð mjög impóneraður af þessum þegnskap okkar blómasalans og spurði: "Eruð þið alltaf svona hjálplegir? Gerist þetta oft?" Við sögðum að þetta væri eitt af móttóum Samtakanna: ávallt reiðurbúnir! Við héldum áfram leiðar okkar og vorum léttir á okkur. Hér viðurkenndi Einar að téður ökumaður héti Ólafur og væri sonur sinn, bíllinn væri einnig hans. Eitthvað sló við það á aðdáun Alberts. Einar taldi upp öll bílhræin sem hann á víðs vegar um borg og hafa leikið í hinum ýmsustu kvikmyndum og aldrei fengið borgað fyrir. Þannig héldum við áfram masandi niður Kringlumýrarbraut og sáum við Suðurlandsbraut að hiti var kominn í mínus 3.

Er komið var á Sæbraut var veður aldeilis með ágætum og fundum við ekki nokkurn vind. Tókum allhratt tempó vestur brautina, gerðum stuttan stanz við vatnshana þar sem ég drakk, héldum svo áfram hlaupinu og fórum um Lækjargötu og Hljómskálagarð eins og tíðkast hin siðari misserin. Albert hafði orðið viðskila við okkur einhvers staðar á Sæbraut, en náði okkur aftur á Hofsvallagötu. Stuttu síðar komu Rúnar og Magga, Eiríkur og Frikki - en þau höfðu tekið spretti og farið 16 km. Við hinir enduðum í 14. Flosi og prófessorinn fóru upp að Stíbblu, 22 km. Flosi gerði þetta af góðmennsku sinni því að prófessorinn var svo hræddur í myrkrinu sem var á leiðinni. Góðar teygjur iðkaðar í Móttökusal. Aðrir sem hlupu í dag voru Kári og Anna Birna, Þorvaldur og Magnús, og vakti athygli að Jörundur hljóp hvorki í dag né heldur á mánudag, maður sem þykist hafa efni á að úthúða öðrum fyrir að sleppa einu gönguhlaupi á sunnudagsmorgni. Hann ætti að rífast meira!

Nú brá svo við að Sunddeild KR var búin að hertaka pottinn okkar og urðum við því að sitja í Örlygshöfn. Rætt um heilsufar Bigga og það sem framundan er hjá honum. Það er víst tiltölulega einföld aðgerð og viðráðanleg. Frikki sagðist treysta honum Unnari sínum til þess að gera hana með rúllupylsunálinni sinni og líma svo einhvern lepp á belginn á eftir, eða það sagði Bjössi kokkur að væri praxís. Deilt var um hvort hnémeiðsli væru útvortis eða innvortis. Að höfðu samráði við lækni skal upplýst að meinsemd sem ekki sést berum augum utan á skrokknum skilgreinist sem "innvortis" - og hafið þið það! Hnémeiðsli geta því talist innvortis ef þau eru inni í hnénu.

Nú er það svo að næstkomandi föstudag er Fyrsti Föstudagur - stefnt að því að halda upp á hann á Dauða Ljóninu. Félagar hvattir til að mæta, von er á óvæntum gesti! Daginn eftir er svo hlaupið frá Laugum kl. 9:30 í félagsskap hlaupara í öðrum hlaupahópum á Höfuðborgarsvæðinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessa dagana hleyp ég í dagsbirtu. Ofurhlauparar Lýðveldisins skilja mig hvort er eð  einan eftir og ég næ þeim ekki fyrr en eftir 30. km.

Jörundur (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband