Hönd í hönd

Ekki var aumingjum út sigandi í veðurblíðunni í dag, 6 stiga frosti, sól, stillu. Enda mættu aðeins hörðustu hlauparar Samtaka Vorra: Rúna, skrifari, blómasalinn, Benzinn og Baldur Tumi. Helmut einn mættur af göngumönnum. Benzinn bara rólegur þegar mætt var í Útiklefa, en var fljótur að ná sér á strik þegar farið var að ræða um pálmatrén hans Hjálmars okkar. Ég spurði: hver man núna eftir að ræða um tölvupósta? 

Jæja, þegar Einar var mættur var lagt í hann. Baldur Tumi skildi okkur fljótlega eftir, og Einar og Rúna þurftu eitthvað að ræða mikið saman. Við Bjarni fórum á undan þeim. Hvern hittum við á skíðum í Skerjafirði nema Flosa bróður! Í hvað er þessi hlaupahópur að breytast? Menn eru ýmist gangandi eða á skíðum þegar hlaup í vaskra sveina og meyja hópi er í boði.

Já, eitthvað var farið að nefna pálmatré og eftir miklar bollaleggingar og útreikninga var niðurstaðan sú að innflutningur á pálmatrjám og uppsetning fyrir litlar 160 milljónir væri óframkvæmanlegt og af því yrði aldrei. Ég spurði aftur í illkvittni hvort einhver myndi að ræða tölvupósta.

Það var í raun ekki hægt annað en njóta hlaupsins og veðurblíðunnar. Bjarni minntist á hlaupara sem hljóp einu sinni með okkur og hét Ágúst Kvaðrat eftir því sem Bjarna minnti. Líklega væri hann dauður því til hans hefði ekki spurst lengi. Svo var náttúrlega minnst á þorrablótið sem framundan er. 

Við hlupum út að Kringlumýrarbraut enda enginn aumingjaskapur í gangi hér. Nú brá svo við að einingin og samræmingin náði slíkum hæðum í tignun þeirra á Guði sínum Mammoni að þeir Einar og Bjarni gengu langar leiðir upp Suðurhlíð hönd í hönd. Það var ógnvænleg sjón. 

Svo var bara að skella sér niður Stokkinn og klára hlaup á góðu róli. En mikið uppskárum við Einar af skömmum og svívirðingum hjá Bjarna þegar hann kom tilbaka að sækja okkur. Vorum kallaðir aumingjar og ellibelgir og ég veit ekki hvað. En það var góð tilfinning að koma tilbaka og við vorum ánægðir með okkur sjálfa. 


Bloggfærslur 30. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband