Ótrúlegt hreint út sagt

Ja, það fer ekki milli mála að vorið er á næsta leiti. Birtan sem við finnum svo átakanlega fyrir nú um miðjan janúar og hitinn, maður minn! Hitinn! 6 stig um miðjan vetur. Ef þetta er ekki ákall um hlaup þá þekki ég ekki hugtakið. Enda voru valinkunnir heiðursmenn mættir til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi kl 16:30. Það voru Einar blómasali, Ólafur Gunn og Ólafur skrifari. Svo voru Jörundur, Helmut og Biggi mættir til göngu. Jörundur önugur og afundinn sem aldrei fyrr, enda erfitt að þurfa að hætta að hlaupa og fara að ganga eins og hvert annað gamalmenni. Þarna voru líka Denni og Sæmi, en þeir hafa óljósa agendu og hlaup þeirra fara með þá um aðrar slóðir en okkar hinna og enda oftast á einhverjum bar í Miðbænum.

Það var lagt upp í einmunablíðu. Skrifari þreyttur að lokinni erfiðri viku í Stjórnarráðinu, en lét á það reyna hvort hann gæti ekki klárað eitt aumingjalegt hlaup. Fór svo að lokum að það var hann sem dró þá hina áfram og hvatti til afreka. Við ræddum um vinnuskilyrði hjá hinu opinbera og þau örlög sem búin eru síðmiðaldra körlum sem rekast illa innan um venjulegt fólk. Lífeyrismál bar á góma og umræður karla á opinberum stöðum sem hljóðritaðar eru með ólöglegum hætti í annarlegum og ólögmætum tilgangi. Þegar komið var að Bragga í Nauthólsvík tókum við eftir myndaupptökuvél við skúrbygginguna sem hann Maggi notar gjarnan á sunnudagshlaupum til þess að létta á sér. Við sáum í hendi okkar að við yrðum að úða málningu fyrir linsuna á vélinni svo að Magnús okkar geti haldið venjum sínum. 

Það var slabb og hálka víða á stígum sem tafði fyrir, en er komið var að Öskjuhlíð var enn bjart og engin þörf á ennisljósi, sem var breyting frá síðasta föstudegi. Við fórum upp skógarstígana og upp glerhála brekkuna, þaðan hjá kirkjugarði, undir Bústaðaveg og svo upp Tröppurnar okkar. Veðurstofa, Saung- og Skák, Hlíðar, Klambrar, Laugavegur. Við ræddum nýlegar byggingar á Siglufirði og möguleika sem þeim tengjast til sameiginlegrar útiveru og dvalar á Norðurlandi á sumri komanda, með tilheyrandi gönguferðum og skemmtan. Komum kátir og sprækir tilbaka eftir hlaup og vorum bara ánægðir með okkur.

Aldeilis ótrúlegt mannval er komið var tilbaka. Sæmi og Denni sátu á snakki við Dani er komið var í pott og báru menn kennsl á gamla Hagaskóladönsku þar. Fljótlega kom Bjössi kokkur og loks Benzinn í pott og mátti hann þá kallast fullmannaður. Kannaðir möguleikar á Þorrablóti Samtaka Vorra. Næst hlaup á sunnudag.


Bloggfærslur 18. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband