Enginn skilinn eftir

Föstudagur. Hástemmdar yfirlýsingar og svardagar að morgni, en eitthvað farið að snjóa yfir fögur fyrirheit er leið á daginn. Altént mætti blómasalinn ekki fyrr en við hin vorum að leggja upp frá Laug. Þetta voru Jóhanna, Rúna, Ólafur Gunn., Guðmundur Benz, Bjarni Benz, Þorvaldur og skrifari. Enginn Fróði, enginn Flosi. 

10 stiga hiti, bjart, en einhver gjóla á sunnan. Ákveðið að fara hefðbundinn föstudag, sem er austur Sólrúnarvelli, hjá Skítastöð og inn í Nauthólsvík, upp á Flanir, beygt upp Hi-Lux og áfram upp Öskjuhlíðina, hjá Veðurstofu, Saung- og Skák, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut og þannig áfram til Laugar. Fyrirheit um að enginn skyldi skilinn eftir gleymdust þegar á Hossvallagötunni og Skrifari var skilinn eftir. Þorvaldur lónaði að vísu rétt fyrir framan hann, og á endanum fylgdust þeir að inn í Nauthólsvík, þar sem Þorvaldur beygði af og fór Hlíðarfót. 

Skrifari er vanur að standa við markmiðssetningar sínar og hljóp svo sem fyrr var lýst. Nú eru Ásatrúarmenn búnir að girða fyrir Hi-Lux og þurfti ég að fara gegnum skóg til þess að komast inn á rétta leið. Hér mátti rifja upp gamla þjóðsögu um HiLux-jeppa sem stóð afsíðis í rjóðri fyrir töttögu árum og rúðurnar voru hélaðar, tölum ekki meira um það. Hljóp upp brekkuna, en hvíldi samkvæmt venju er upp var komið. Svo var þetta nokkuð hefðbundið með Veðurstofuhálendinu, Saung- og Skák, Klömbrum, Hlemmi, Sæbraut og þannig áfram.

Mikið sem þessi hlaupari var sveittur og þreyttur er komið var til Laugar! Þá voru félagar mínir þegar komnir til baka, en fögnuðu öngu að síður skrifara sínum. Við tók samtal um mat og matargerð.

Þetta er allt að koma, þrekið vex með hverju hlaupi, kílóin renna af í stríðum straumi og um leið verða hlaupin auðveldari. 

Næst sunnudagur kl. 9 10.


Ræða í sjötugsafmæli Ólafs Þorsteinssonar 8.3. 2018

Þegar Ólafur Þorsteinsson varð sextugur fyrir réttum tíu árum síðan hélt hann mikla veislu í safnaðarheimili Neskirkju. Þar vorum við mætt. Við það tækifæri hélt Ólafur frændi minn ræðu og sagði að fimm menn hefðu haft hvað mest áhrif á hann á lífsleiðinni. Hófst svo upptalning, en ekki komst hann lengra en á þriðja mann, því að þá hafði hann tapað þræðinum í útúrdúrum og skógarferðum og komst þarafleiðandi ekki til þess að nefna tvo hina síðustu. Það var allt í lagi, því að enginn tók eftir þessu...nema Vilhjálmur Bjarnason. En svona er Ólafur.

Við þessir vinalausu aumingjar sem alltaf gerum allt eins og líður best illa

Viljum heiðra vin okkar og félaga til fjölda ára á sjötugsafmæli hans í dag.

Fundum okkar bar fyrst saman að því ég best man þegar ég var 11 ára gamall og hann þá væntanlega 21. Góðir menn, annað hvort Einar Þorvarðarson, síðar frkv.stjóri HSÍ, eða Pétur Arnarson kallaður Pilot, komu að máli við mig og föluðust eftir leikni minni og tækni í knattspyrnu. Til stæði að þreyta kappleik á grasbala milli Þjóðminjasafns og aðalbyggingar Háskóla Íslands. Er komið var á svæðið sá ég þar helstan Ólaf Þorsteinson, sem ég vissi að var frændi minn. Faðir hans hafði verið tannlæknir fjölskyldu minnar til ára og áratuga.

Ekki man ég gjörla eftir leiknum sjálfum, annað en menn sóttu hann af kappi, en ég stóð aðallega með hendur í vösum og spjallaði við markvörðinn.

En mér er minnisstætt að er leik var lokið kom Ólafur Þorsteinsson til mín, tók í höndina á mér og þakkaði fyrir framlag mitt, ég hefði staðið mig frábærlega. Þessi kurteisi kom mér á óvart, en ég var ákaflega þakklátur fyrir vinsemdina.

Síðar fékk ég sömu móttökur er ég mætti til sunnudagshlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Tekið var á móti mér með mikilli kurteisi og rætt um mikinn hvalreka fyrir Samtökin.

Hvað um það. Verður er góður vinur gjafa. Er um það var rætt í hópi vorum hvað hægt væri að gefa manni sem ætti allt datt mönnum einna helst í hug eitthvað sem gæti glatt andann og þá er ég ekki að ræða um bækur með bílnúmerum. Eitthvað sem rennur. Nei, kirkjuráðsmenn og bókagerðar risu öndverðir gegn slíkum áformum og vildu helst gefa afmælisbarninu geit í Afríku. Hér varð undirritaður hugsi mjög og velti fyrir sér á hverjum ætti að vinna góðverk: geitinni eða afmælisbarninu? Hver ætti að gefa geitinni að borða og hýsa hana? Hver ætti að hirða hana? Hver ætti að koma í veg fyrir að geitin sjálf yrði borðuð? Var ætlast til þess að Formaður vor til Lífstíðar legði land undir fót og færi alla leið til Afríku til að huga að geitinni?

Nei, við verðum að vera praktískir og gefa eitthvað sem gleður til lengri en aðallega skemmri tíma. Því varð að ráði að fjárfesta í nokkrum flöskum af eðalvíni, m.a. héraðsvíni Vesturbæjarins. En þeirri gjöf fylgja þó varnaðarorð: grútur einn í hópi vorum fékk flösku af héraðsvíninu að gjöf á fimmtugsafmælinu og tímdi ekki að opna flöskuna fyrr en að fimm árum liðnum. Þá hafði vínið breyst í edik.

Svo við segjum: ekki draga um of að opna vínið, það myndi t.d. sóma sér vel á borðum að afloknu Holtavörðuheiðarhlaupi á sumri komanda.

Njóttu vel og megir þú eiga sem flesta afmælisdaga í vændum.

Skál!


Bloggfærslur 13. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband