Færsluflokkur: Sögur af hetjum
9.10.2008 | 18:38
Hlaupið inn í kirkjugarð
Gullkorn frá varariturum í fjarveru Aðalritara. Birgir jógi hefur orðið:
"Það var misglaðbeittur hópur fólks sem kom saman fyrir framan laug nú
á miðvikudaginn klukkan seytján þrjátíu. Engum blöðum þurfti um það
að fletta að sumum var heitt í hamsi eftir að hafa misst allt sitt
sparifé, á meðan greina mátti glott á vörum annarra sem túlka mátti
sem: Saggði ég ekki að þetta myndi fara svona?
Prófessor Fróði (Á. Kvaran) var himinlifandi yfir að hafa skráð sig
og borgað með Evrum í Sahara maraþonið, því ef hann hætti við fengi
hann endurgreitt í Evrum sem í dag kostar eitt stykki c.a. 300 kall.
Þegar Fróði greiddi fyrir hlaupið var Evran i 120.
Magga þjálfari benti lýðnum á að þeir sem hlupu Berlín ættu enn um
sinn að slæpast þetta örfáa kílómetra á lullandi tempói og mælti með
Hlíðarfæti. Af stað löggðu síðan um það bil þessir: Flosi, Ágúst
Kvaran, Magga, Þorvaldur, Einar blómasali, Helmut og Jóhanna, Rúna,
Magnús og Una. Ég gleymi örugglega einhverjum og biðst forláts á því.
Það bar síðan fátt til tíðinda þar til hópurinn kom að
Fossvigskirkjugarði að bjartsýnismennirnir Flosi & Co fóru niður
brekkuna en Birgir, Þorvaldur, Helmut, Jóhanna o.fl. fóru inn í
kirkjugarðinn. Fannst það vel við hæfi í þessu ástandi öllu saman þar
sem allt virðist á vonarvöl.
Síðan var þetta blanda af föstudegi og sunnudegi þar sem farið var
til vinstri við Veðurstofuna og síðan gegnum Klambratúnið.
Laugavegurinn var hlaupinn til að sjá ástand landans í kreppunni.
Nokkrir rónar gerðu aðsúg að okkur og við vorum ekki rónni fyrr en
við vorum komin í Grjótaþorpið. Rakleitt síðan til laugar með
örstuttu stoppi í Melabúðinni þar sem ég kastaði vatni, nei ég meina
kveðju, á Friðrik sem stóð gleiður við innganginn og horfði á
sjónvarpið. Melabúðin var í danska sjónvarpinu nú í vikunni og því
orðin heimsfræg. Mættum blómasalanum á hlaupum út úr lauginni og
beint inn í bíl við konunnar. Sást grilla í matvörupoka í bílnum svo
líklega hefur hungrið verið farið að sverfa að.
Síðan var haldið í pott en þeir voru allir fullir af útlendingum sem
eru strax mættir til að drekka ódýrasta bjór í heimi. Já nú er hún
Snorrabúð stekkur og spurning hvort ekki eigi að endurreisa Sambandið
og Miklagarð með slagorðið mikið fyrir litið?"
Próf. dr. Fróða segist svo frá sama hlaupi:
"Jú það var hlaupið. Allgóð mæting: Margret, kona að nafni Sirrý
(fornleifafræðingur), Birgir símalandi, Sigurður Ingvarsson forhlaupinn og
bætti við hlaupi með okkur, Flosi, Una, Þjóðverjinn, sem enginn þekkir,
Magnús tannlæknir, Bjarni, Blómasalinn, Rúna, Helmut, Jóhanna, Þorvaldur,
undirritaður og hugsanlega einhverjir fleiri. Við Nauthól skildu leiðir.
Ég, Siggi og Flosi héldum áfram inn Fossvogsdal. Nálægt Víkingsheimili
stytti Flosi, en við Siggi héldum áfram Goldfinger og upp að stíbblu og
niður dalinn norðanmegin. Þar yfirgaf Siggi mig og hélt heim á leið. Ég
hélt áfram til baka Fossvogsdalinn og lagði samtals 21.89 km að baki
(verkjalaus). Þetta var 5. hlaupið í röð á 4 dögum (sjá:
http://www.hi.is/~agust/hlaup/ak/hlak07.xls): Í gær hljóp ég tvö hlaup: í
og úr vinnu, með bakpoka heimleiðina. Stefnir í um 100 km þessa viku! Nú
er alvaran hafin.
Annars er fátt að frétta héðan nema hvað allt er í kaldakolum og við erum á
góðri leið að sökkva Breska heimsveldinu með okkur!
Farðu svo að koma þér heim: Bjórinn er ódýrari hér!"
Til þess að klykkja út kemur ein ágæt vísa eftir ónefndan organista:
Menn sér fara vildu að voða
í vitleysu af fyrstu gráðu,
því útrásin var eintóm froða
eins og vinstri grænir spáðu.
Í gvuðs friði, ritari.
6.9.2008 | 18:38
Lofræða
Ritari vitrari?
Mér finnst rétt að ritari vor fái aðeins aðhald hér á blogginu okkar
og einoki ekki einn þennan ágæta vettvang vorn fyrir hlaupatengda lífsspeki í bland
við annað.
Mér féll í fyrstu ekkert sérlega vel við þennan mann sem virtist ekki
víla það fyrir sér að nefna mann ýmsum nöfnum fjölskyldu minni, aldraðri móður og
fjarskyldum frænda til mikillar undrunar. En þetta átti eftir að breytast.
Ég hafði heldur ekki mikið álit á honum sem hlaupara. Taldi raunar að
hlaupin væru aðeins yfirskin til að geta fengið útrás á okkur eymingjunum.
Þegar ég svo sé manninn (Ólaf riddara, nei ég meina ritara) hlaupa
heilt maraþon í fyrra án þess að blása úr nös og ausa úr brunni visku og kærleika yfir
okkur minni hlaupara, fór ég að sjá hið stóra samhengi hlutanna.
Ólafur er einfaldlega hinn fullkomni leiðbeinandi sem leiðir oss á
hina þrengri og vandrataðri stigu hlauparans. Hann hefur í rólegheitum bent okkur á
með góðu fordæmi að þær stundir koma að við þurfum að slaka aðeins á, taka
langt með smá tempói þegar þjálfarinn segir brekkusprettir, vegna þess að líkami
vor segir okkur það.
Samt sem áður hefur Ólafur af sinn meðfæddu diplómasíu náð að fylgja
þjálfurum að mestu og er af sanngirni farinn að mæla með því að við hlýðum þeirra
fyrirmælum. Þó aldrei svo að við lokum eyrunum fyrir því sem líkami vor hefur að
mæla.
Ferfalt húrra fyrir Ólafi, Rúnari, Möggu, Hauki (sem kom þjálfurunum af atvinnuleysisbótunum) og okkur öllum hinum sem erum að fara til Berlínar nú í lok september
2008!
Biggi jógi
26.8.2008 | 11:28
Tímar í Reykjavíkurmaraþoni
Sögur af hetjum | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2008 | 21:12
Þar sem þögnin ein ræður ríkjum
Var síðan haldið til Agureyris, með viðkomu í Vestur-Hún. á Gauksmýri, þar sem áð var. Einhverskonar hátíð var á Hvammstanga, miðvikudagskvöldið; gefin fiskisúpa og rabbabarapæ og hægt var að kaupa gamla, notaða hluti fyrir lítið fé. Svolítið torræð hátíð sem ég skildi ekki hvar byrjaði og hvar endaði.