"Þetta er æðislegt!"

Þrettán mættir í morgunhlaup á laugardegi, enn dimmt úti þegar safnast var saman. Báðir þjálfarar, Bjössi, blómasalinn, ritari, Sirrý, Þorbjörg K., Ósk, Hjálmar, Friðrik, Jóhanna, og svo man ég ekki nöfn tveggja. Megnið af hópnum afar hraður og var í upphafi sett á tempóið 5:00 og farið þannig út í Nauthólsvík. Þá sprakk þessi hlaupari og fór með Frikka og blómasalanum upp hjá Bogganum, stefnan sett á Þriggjabrúahlaup. Þeir voru á sama báti og ég, þungir og þreyttir og fór vel á því að við hefðum samflot tilbaka. Það voru sagðar sögur, byggingar voru greindar og sagt frá eðlisfræðilögmálum á Sæbrautinni.

Þar sem við sátum fyrir framan Melabúðina að hlaupi loknu og úðuðum í okkur banönum sem Federico traktéraði okkur á og horfðum á mannlífið, kom hlaupandi Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar á sínu hefðbundna laugardagshlaupi um Vestbyen. Í för með honum var Hjálmar og voru þeir í djúpum samræðum um mannleg málefni. Hafði Ólafur frá mörgu að segja og lá margt á hjarta. Voru honum færðar árnaðaróskir í tilefni af því að hann hefur "tollað í hjónabandi" í á þriðja tug ára og heldur upp á það um þessar mundir.

Á Plani var upplýst að sumir hefðu farið langt, 18 km og þar yfir, lengst fóru þjálfarar, 22 km. Dagurinn frábær í alla staði, veður eins og það gerist bezt til hlaupa, enda gat Frikki ekki hamið sig á leiðinni, og hrópaði hvað eftir annað: "Þetta er ÆÆÆÆÐISLEGT!"

Hefðbundið sagna- og vísbendingahlaup að morgni sunnudags kl. 10:10.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband