Í brúnum boga á Nesi

Spurt var: eru Hlaupasamtökin dauð? Eru menn hættir að hlaupa? Hvar getur almenningur nálgast andríkar frásagnir um hlaup? Hvað er að gerast? Svo er mál með vexti að ritari brá undir sig betri fætinum og hvarf á vit frænda og vina í Svíaríki um nokkurra daga skeið og að því búnu lá leiðin til Bruxelles þar sem kynni voru endurnýjuð við innfædda, en sumir telja að fallandi nyt í búpeningi á Flandri megi rekja til reglubundinna heimsókna ritara til þessa heimshluta. Ekki er gott að átta sig á hvernig menn hafa komist að þeirri niðurstöðu. Nema hvað, föstudaginn 20. nóvember var ritari mættur til hlaups að nýju, að vísu óvenjuseinn fyrir og mætti samtímis blómasala sem innbyrti 300 g hamborgara í hádeginu ásamt meðfylgjandi brauðbollu, salati og sósu. Það var skrýðst til hlaups í Útiklefa Laugar Vorrar.

Í Brottfararsal biðu þessir að hlaup hæfist: próf. dr. Fróði, dr. Flúss, Jörundur, Kári, Bjössi, Biggi, Stefán Ingi og Elínborg, auk fyrrgreindra ritara og blómasala, Magnús dental, Benedikt. Búið var að ákveða að hlaupa Neshring til heiðurs dr. Jóhönnu sem tekið hefur upp hefðbundin föstudagshlaup í Chile, Montborg. Stefnt að sjóbaði. Lagt í hann með þá Flosa og Ágúst í forystu. Ritara fannst hann furðu léttur á sér, gat þetta haldið svona áfram? Öðru máli gegndi um blómasalann, hann var með sinn 300 g hammara einhvers staðar langt að baki ritara og náði sér aldrei á strik í hlaupinu. Þegar ritari spurði Bjössa að hlaupi loknu hvað hefði orðið af blómasala, spurði Bjössi á móti: Hver er það?

 Nema hvað það er farið hefðbundið upp á Víðimel og þaðan út í Ánanaust og svo vestur úr til vina vorra á Nesi. Próf. Fróði hafði á orði að við ættum  inni gamlan föstudag sem hefði gleymst að taka út, frá marz 2007. Gerður var góður rómur að því að nýta þennan gamla tékka. Furðu voru menn rólegir, á þessum parti voru í forystu Flosi, Ágúst, Benni, Maggi og ritari - en svo dró í sundur með mönnum og greinilegt að kapp var hlaupið í suma. Við Maggi fórum á rólegu stími á Nesið og rifjuðum upp góða sögu sem Kári sagði á Plani, um masterlykla og dyraskrár. Biggi fór fram úr okkur og setti strikið á þá sem fremstir fóru. Ritari áréttaði að það liti svo út að þeir væru staddir í keppni.

Við nenntum ekki að fara kringum golfvöllinn en snerum við hjá Bakkatjörn og vorum enn án sambands við þá sem á eftir okkur fóru, þótti okkur það sæta tíðendum. Ég ræddi við Magnús um mataræði blómasalans, sem er sjálfum sér verstur með óagaðri framkomu frammi fyrir freistingunum, það er til lítils að vera að hlaupa sig fordjarfaðan ef menn kunna sér ekki hóf í mat og eyðileggja fyrir sér hlaup með ofáti í hádegi. Á þessum kafla varð okkur Magnúsi á orði hvílíkur lúxus það væri að geta hlaupið og notið útiveru í svona frábæru veðri 20. nóvember 2009.  

Við komum á Brottfararplan og brátt sömluðust hlauparar þar saman, sumir komnir í kjölfar okkar, aðrir sem fóru lengra og voru hlaupamóðir. En þetta var ánægjulegt hlaup og okkur öllum til sóma. Pottur þéttur og góður og rætt lengi dags um ýmislegt sem til framfara horfir í samtímanum, Friðrik kaupmaður og Rúna mætt til þess að bæta geð guma.  En þetta var bara byrjunin. Stundu síðar söfnuðust valdir einstaklingar, próf. Fróði, ritari, Bjössi og Biggi, saman til jólaölsdrykkju á Fyrsta Föstudegi marzmánaðar 2007 á Dauða Ljóninu. Þar átti Björn þvílíkar rispur að við öskruðum, Nei!, grenjuðum af hlátri og vöktum athygli annarra gesta með kátínu okkar. Þetta voru sögur af ýmsu tagi og dygðu til að fylla nýja bók af karaktér Storms. Erfitt var að slíta sig frá þvílíkum félagsskap, en heima biðu skylduverkin og ekki um annað að ræða að brynja sig og knýja hjólfákinn fráa upp á Landakotshæð.

Frábært fyrsta hlaup ritara eftir tólf daga fjarveru og er ekki fráleitt að mætt verði að nýju til hlaups í fyrramálið, laugardaginn 21. nóvember 2009, kl. 9:30.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband