Fæddur herforingi

Dagurinn hófst á myndatöku. Kári stillti hópnum upp með nýjum hætti inni í Brottfararsal við þrepin svo að raða mætti öllum í eina línu sem fengi inni í klisjunni á bloggsíðu. "Hvað var að hinni myndinni?" spurði B. Símonarson afundinn. Góðir menn útskýrðu fyrir honum að ekki nema helmingur hópsins hefði verið á klisjunni. "Skiptir það máli? Var ekki hægt að fótósjoppa hina inn og bæta svo Vilhjálmi við eftir á?" Hlaupasamtökin elska sannleikann og ástunda ekki sögufalsanir, hvorki í tíma né rúmi. Af þeirri ástæðu var smellt af fjöldanum öllum af myndum og verður sú bezta valin. Í þetta skiptið lét Framsóknarmaðurinn símann í friði og telja kunnugir að hann hafi litið nokkurn veginn eðlilega út á myndinni. Svo verður bara að láta á það reyna hvernig Þorvaldur var.

Báðir þjálfarar mættir og lögðu línur um spretti. Fyrst rólega út að Skítastöð, svo 500 m og 1000 m sprettir. Hersingin hátt í 30 manns fór í rólegheitum inn að Stöð, áberandi var hve Sirrý lét í sér heyra. Ekki tók betra við þegar kom að Dælu, þá var hún farin að hrópa út skipanir og hvatningar og spretti úr spori eins og fjandinn væri á hælunum á henni. Datt manni Biggi Tvö í hug, nema hvað Sirrý hefur blessunarlega ekki uppgötvað hvítlaukinn. Jæja þarna tröðkuðum við í myrkrinu, fram og aftur blindgötuna, svo dimmt var að við vorum æ ofan í æ nærri búin að hlaupa niður fótgangandi vegfarendur. Einnig voru ljóslaus hjól á stígnum til mikils ama í kvöld. Svo kom hersingin af Nesi og við þóttumst vera mjög bisí, öskruðum fyrirmæli um átök og sprettum úr spori.

Þetta urðu 8 500 m sprettir á 10% yfir eðlilegum hraða, jafnvel aðeins hraðara, og endað á því að fara vestur úr. Sem fyrr segir var Sirrý eins og herforingi í hópnum, mælti fyrir um að sprett skyldi úr spori, einnig Þorbjörg M., sem er að koma tilbaka eftir nokkra fjarveru. Þó hefur blómasalinn slegið öll met, var ótrúlega sprækur þrátt fyrir að hafa eytt helginni í sukk og ólifnað. Ritari frekar dapur.

Það bar til tíðinda í hlaupi kvöldsins að Ó. Þorsteinsson var mættur öðru sinni á mánudegi og hefur þá hlaupið þrjá daga í röð. Einnig var Jörundur mættur, Magnús tannlæknir, Kalli kokkur og dr. Friðrik.

Mánudagar eru oft erfiðir, það er vandkvæðum bundið að finna hjá sér hvatningu til þess að fara að hlaupa. Því er það ánægjulegt að ljúka stuttu og snörpu hlaupi og slaka á í potti á eftir. Hefðbundin umræða um einelti og matargerð.

Ritari hverfur til brýnna starfa í þágu Lýðveldisins á erlendri grundu og snýr tilbaka að tíu dögum liðnum. Er til þess mælst að fólk hlaupi og skrái tíðindi á blogg Samtaka Vorra. Fylgst verður með úr fjarlægð.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður er varla kominn út á flugvöll þegar þið flýtið ykkur að má öll ummerki um mann á síðunni. Eru engin takmörk fyrir því hvað þið getið verið andstyggileg?

Jóhanna (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 21:00

2 Smámynd: Kári Harðarson

...og þú ert?

Kári Harðarson, 9.11.2009 kl. 21:39

3 identicon

Kári. Ég er ekki viss hver þessi Jóhanna er, þær eru nokkrar. En þurfum við ekki að færa heiti Samtaka Vorra niður á brjóstin á Bjössa og dr. Friðriki, svo að við sjáum smettin á dr. Flúss, The Horny Grocer, Magga og Framsóknarmanninum sem híma þarna á bakvið?

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 17:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband