Ljúft eins og dans

Sumir dagar eru góðir dagar. Þannig var dagurinn í dag. Þoka lagðist yfir höfuðborg Norðursins, súld, úði, hiti um 8 gráður meðan snjór hylur Evrópu og Skandinavíuskaga, stilla. Það var einhver anti-klimax í loftinu eftir ákaflega vel heppnað sunnudagshlaup þar sem helztu öðlingar Hlaupasamtakanna voru saman komnir og þreyttu eftirminnilegt hlaup saman og áttu góðar samræður á meðan. Sá er hér ritar var svartsýnn á þátttöku - sem var óþarfi, því þegar komið var í Brottfararsal úr útiklefa sátu þar dr. Friðrik og Vilhjálmur Bjarnason, báðir í góðu skapi og tóku aðkomumönnum vel. Hefðbundnar kýtur hófust og ásakanir um að ritari færi með rangt mál og álygar um vandaða menn.

Hlaupið hefðbundið mánudagshlaup út í Skerjafjörð, ánægjulegt að sjá Önnu Birnu og aðra konu með henni sem fylgdu okkur eftir, Björn kokkur og maður sem mig minnir hafi verið kallaður Bjarni bifreiðastjóri, sá var klæddur stuttbuxum og stuttermabol - sem er lýsandi fyrir veðráttuna og ekkert fráleitt! Sjálfur kaus ég að fylgja dr. Friðriki og má segja að samfylgd okkar hafi verið ein samfelld matar- og drykkjarveizla. Það var rætt um julebryg á Kastrup, rostbiff, aðrar blandaðar brauðsneiðar, hreindýrasteikur af ýmsum tegundum, Mannerheim-snapsa, rússneskan veitingastað í Helsinki sem mælt er með, Saslik á Neitsytpolku 12 í Helsinki. Frábær matur þar. Sögur því til staðfestingar.

Rætt áfram um ýmsa danska matsölustaði og danska rétti, Hviids Vinstue, pariserböf, o.fl. o.fl. Ætla mætti að Einar blómasali hafi hér verið viðstaddur og ráðið ferðinni, en svo var ekki. Hann hljóp ekki í kvöld. Við fórum sannkallaðan aumingja, líklega bara 6 km, og sést hvílík þörf er fyrir alvöruhlaupara eins og próf. Fróða til þess að rífa starfsemina upp, allt er að lognast niður og hætt að spenna glyrnur austur fyrir Kringlumýrarbraut - þetta er dapurlegt!

Mikið myrkur og þoka hvíldi yfir Skerjafiðri og Ægisíðu - maður bjóst við því að lenda í fanginu á e-i á hverri stundu, en þetta bjargaðist. Hlaupið var mátulegt, ég aumur með ónýta hnéskel, fleiri daprir í nánd, Magnús og Guðmundur fóru eitthvað svipað og við.

Ég lá í potti og vorkenndi sjálfum mér, þegar ég sá kunnuglegar útlínur lauma sér í heitasta pott. Fór yfir og sótti ónefndan blómasala sem kvaðst hafa verið upptekinn í viðskiptum og því misst af hlaupi, var á leiðinni út á lífið með viðskiptapartner. Ég gaf honum leiðbeiningar um hvert hann gæti farið til þess að fá ódýran, en jafnframt góðan og hollan mat.

Næst er hlaupið á miðvikudag undir stjórn Rúnars þjálfara, eins og segir í auglýsingunni: alla er farið að hlakka til (væri rétt svona: Allah er farið að hlakka til - nema... hélt Allah upp á jólin?). Nei, pæling. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband