Faðir minn - flugdólgurinn

Þessi missirin er í tízku að rita bækur um skyldmenni sín. Dæmi þar um er ný bók fréttaþularins Eddu Andrésdóttur um föður sinn sem veiktist af Alzheimer með þekktum afleiðingum. Dóttir mín tilkynnti mér að nú stæði til að hún ritaði um föður sinn - eini titillinn sem henni datt í hug var fyrirsögn þessa pistils, Faðir minn - flugdólgurinn. Hvaðan henni er kominn þessi titill er mér hulið, og virðist sem skæðar tungur og illar hafi villt um fyrir henni.

Mættir til hlaups á þessum fagra sunnudagsmorgni voru helztu og beztu hlauparar Hlaupasamtakanna, engir eymingjar þar: Magnús, Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur ritari, og þykist ég vita að hrollur fari um lesendur þegar þeir renna yfir þessa upptalningu: hvílíkur hópur, hvílíkt mannval! En meira um það seinna. Veður var fagurt í morgun eftir storminn sem reið yfir landið í dag: stilla, frost, kyrrt, hægviðri, bjartviðri, sól - gerist ekki betra á þessum árstíma. Magnús var í nýjum jakka, eða þannig, ekki beinlínis nýjum, en allir hinir voru óhreinir og þessi einn eftir. Við hældum honum á hvert reipi fyrir jakkann, og töldum hann eiga heima í hvaða tízkutímariti sem er. Magnús var eðlilega uppveðraður af þessum viðtökum jakkans, en Ó. Þorsteinsson var fljótur að skjóta hann niður (sem mér fannst óþarfi): "Þetta er svona kaupfélagsjakki frá Bretlandi, frekar billegur." Svona segir maður náttúrlega ekki við félaga sína á sunnudagsmorgni.

Einhverra hluta vegna voru menn bæði seinir og orðmargir í Brottfararsal, um margt var að ræða, VB með Landsvirkjunarhúfu sem lagðist illa í viðstadda, einkum Jörund hlaupara og Jón Bjarnason þingmann, sem leið átti um á sama tíma. Nú vantaði aðeins Þorvald til þess að hlaup mætti kallast fullkomið, nema ef frá er talinn Birgir Jógi. 

Farið út rólega og rætt um byggingamál Formanns, en til stendur að hann hækki hús sitt og auki rými allt, en ekkert hefur gerst í þrjú ár. Honum var bent á að iðnaðarmenn væru hugsanlega tilkippilegri ef þeim væri borgað, eða altént lofað borgun, fyrir verk sín. Þetta hafði frændi minn ekki hugleitt, en lofaði að athuga þennan möguleika.

Verulega góður andi ríkti í hópnum framan af á Ægisíðu og eindrægnin í fyrirrúmi, rætt um gjallarhornssýki, hlutafélög og óskiljanleg viðtöl við menn í fjölmiðlum, en einkum kvartaði Jörundur yfir því að stundum þegar hann læsi viðtöl við menn, t.d. í viðskiptablaði Moggans, þá skildi hann æ minna hvað menn væru að meina eftir því sem hann læsi viðtalið oftar. Ég spurði Ó. Þorsteinsson hvort hann hefði lesið viðtalið. "Já, já", sagði frændi minn. Ekki meira um það, svona er frændi minn orðfár og varfærinn maður, ekki til í honum ómerkilegheit eða vilji til þess að tala ílt um aðra. Þannig hefur hann alltaf virst mér og skýrir hvers vegna hann hefur komist til þeirra metorða innan Samtaka vorra sem dæmin sanna. Jörundur fór á flug þegar hann sá fjöllin á Reykjanesi, og fór að tala um gufur og reykjastróka, álver og virkjanir, en Einar mælti gegn þessu og taldi lítinn skaða þótt álver og virkjanir risu syðra, það væri bara framfaramál. Einhvers staðar á leiðinni var rætt um baráttu fjárfesta fyrir því að fá aðgang að hluthafafundum - vesalingur minn misskildi þessa viðleitni á þann hátt að hér væri á ferðinni sókn í mat og drykk, menn vildu inn á fundina til þess að fá að borða og drekka. VB brást ókvæða við og óttaðist ég um stund að hann ætlaði að hætta hlaupi, en hann lét nægja snaggaralegar skammir og tók aftur upp hlaup.

Í Nauthólsvík var staldrað við og þar mættum við konum sem voru nafngreindar, búsettar í Kópavogi og Árbæ og hlaupa frá Árbæjarlaug með nafngreindum þjálfara. Hér heimtaði Ó. Þorsteinsson strax ættartölu og curriculum vitae auk greinargerðar um helztu afrek á hlaupabrautinni. Þær brugðust fálega við - en VB greip inn í og fullyrti að næst myndi ÓÞ heimta upplýsingar um marital status og barneignir og hvatti þær til þagmælsku. Þær héldu að þetta væri gönguklúbbur, en við leiðréttum það og bentum á að hér færi fram mikil menningarumræða og upplýsing, persónufræði og greining á þróun hagstærða.

Það var kalt í Nauthólsvík í dag og því var haldið áfram í Kirkjugarð, varpað fram tilgátuspurningu þar sem svarið var Gísli Ragnarsson - en ég man ekki vísbendingarnar, þær voru vonandi góðar. Hér spurði Ó. Þorsteinsson hvort menn hefðu séð Spaugstofuna kveldinu áður. Nei, ekki almennt. Þá bað hann menn að skoða hana um kvöldið og athuga hvort þeir sæju það sama og hann - mann sem kom út úr skáp, talandi um álitsgjöf og heita Vilhjálmur.

Nú var rætt um fjandvini. Ritari hafði nefnilega tekið eftir einkennilegum samstæðum: ónefndum organista sem sækir VBL á morgnana og lækni nokkrum, þar sem köpuryrðin ganga á milli nánast linnulaust, og organistinn í hlutverki þess önuga, læknirinn í hlutverki hins glaðlynda, umburðarlynda og eilíft hneggjandi viðmælanda sem aldrei styggist. Þarna var fundin samsvörun við samskipti þeirra ÓÞ og VB, annar önugur og gagnrýninn, hinn geðprýðin uppmáluð, alltaf til í að hringja í vin sinn á sunnudagsmorgnum til þess að hlera ástand mála, alltaf til í að miðla málum og sættast.

Svo var haldið áfram, við kólnuðum hratt niður og því mikilvægt að halda á sér hita, ég lenti með Magga og Jörundi á Klömbrum, við vorum á undan þeim hinum, og við vildum ekki stoppa meira eftir þetta vegna þess að Jörundur var illa klæddur og þoldi illa göngustopp. Fórum samt út á Sæbraut þrátt fyrir norðangarra og fórum gegnum miðbæinn. Stöldruðum við hjá Hafnarhúsinu þar sem verið var að rífa niður viðbótarbyggingu vegna brúðhlaups Jóns Ásgeirs og Ingibjargar, þar urruðu verkamenn að okkur, en við létum það ekki hindra okkur í að reka inn nefið. Lítið að sjá þar, héldum áfram út á Ægisgötu og svo þá leið tilbaka.

Í Brottfararsal beið okkar Pétur hennar Unnar. Steinunn sagði að hann væri orðinn þunnhærður framan á höfði sökum eilífs vindbelgings í Vesturbæ, enda væri hann uppalinn í Vesturbænum. Við horfðum hver á annan og gátum ekki annað en staðfest að líklega væri rétt með farið, allir lítt hærðir framan til. Svo sagði Steinunn að Pétur væri skurmslaður í andliti vegna þess að þegar lægði, passaði hann sig ekki á því og félli fram fyrir sig og á andlitið.

Í pott vantaði helztu andleg máttarvöld Samtaka Vorra: dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, sá fyrrnefndi mun vera í Washington, og sagði Ó. Þorsteinsson að ferðasögur dr. Baldurs væru tvennrar náttúru: fyrir ferð og eftir ferð, en báðar væru svo að segja samhljóða frá orði til orðs. VB staðfesti þessa fullyrðingu ÓÞ. Blómasalinn fór aðeins í heitasta pott og mætti ekki til helgra tíða í barnapotti eins og hefðin býður, af þeim sökum segir ekki meira af honum hér. Rætt um hreindýrskjötbollur sem ritari varð aðnjótandi kveldið áður - af því spunnust miklar ættfræðiumræður og enduðu með níðingslegum vísbendingaspurningum Vilhjálms Bjarnasonar og meðfylgjandi vandræðalegum þögnum frænda míns og tómeygð - þar til viðurkennt var að hugsanlega þyrfti Ó. Þorsteinsson að fara að lesa sér örlítið til um venzl manna og dýpri tengsl.

Staðfestur sáttmáli um að í Vesturbænum hlaupa glaðsinna galgopar, sem stefna ekki að árangri í hlaupum, heldur að framförum í mannlegum samskiptum, andlegum þroska, upplýsingu, þekkingu - en umfram allt að því að njóta hlaupa, útiveru, og félagsskapar. Á morgun er nýtt hlaup með þjálfara, þá verður gaman, alla hlakkar til, eins og segir í auglýsingunni. Í gvuðs friði. Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband