Benzinn fundinn

Það var föngulegur hópur sem mætti til hlaups á sunnudagsmorgni í sumarhita. Þessir voru: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Þorvaldur, Tobba, Rúna, skrifari og Benz. Benzinn mætti að vísu seint svo að við héldum af stað án hans og varð hann að gjöra svo vel að girða sig í brók og reyna að ná okkur. Við vorum afar hæg og hægastur allra var skrifari, mjög þungur á sér eftir veisluhöld undanfarinna daga. Magnús sagði nokkra Kirkjuráðsbrandara við upphaf hlaups og gekk fram af Formanni til Lífstíðar fyrir vikið, þeir eru víst ekki húsum hæfir á betri heimilum í Vestbyen þessir brandarar hans Magga. 

Við bjuggumst við að mæta Vilhjálmi við Lambhól, en sú von brást. Og raunar fór það svo að hann varð yfirleitt ekki á vegi okkar í hlaupi dagsins, ekki einu sinni í Grænuhlíð þar sem hann mundi ekki nafn frægasta Íslendingsins hér um daginn.

Það var verið að dóla þetta í rólegheitum og töluverð þyngsli í mannskapnum. Við ræddum um fyrirhugaða för dr. Baldurs til Bandaríkjanna, en Ólafur Þ. hefur tekið að sér að vera húsvörður á meðan, og er þar með orðinn kollegi Benzins sem gætir húss í Arnarnesi.

Gengið í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Sagt er að blómasalinn ætli í októbermaraþon, en ekki er víst að það verði frægðarför miðað við fjarveru hans frá hlaupum. Benzinn upplýsti að hann hefði lést um 5 kg af því að taka eitthvert töfraduft og væri nú sprækur eins og lækur. Við félagar hans vorum á því að duftið hefði hreinsað eitt og annað gagnlegt innan úr honum um leið og raskað ákveðnu jafnvægi sem nauðsynlegt er mannlegum metabólisma.

Farið um Kirkjugarð, Veðurstofuhálendið, Hlíðar, þar urðum við fyrir aðkasti ónefnds ríkisstarfsmanns. Svo farið um Klambratún og Hlemm og sagðar fallegar sögur. Við Ólafur og Magnús fórum niður á Sæbraut og létum vaða vestur úr. Gengið upp Túngötuna þar sem við mættum Bjarna Benz. Hann heimtaði að við tækjum ofan pottlok við Kristskirkju, bugtuðum okkur og beygðum og gerðum krossmark. Ólafur taldi þetta óþarfa þar eð maðurinn á loftinu væri hvort eð er í Víkingstreyju.

Í Pott mættu auk valinna hlaupara dr. Baldur, Helga Jónsdóttir og Stefán - og svo kom Jörundur, sem er meiddur eftir að hafa orðið undir í átökum við lambhrút, en Jörundur er smalastrákur að aukastarfi á haustin. Spurt var um dr. Einar Gunnar en hann hefur ekki sést í Potti í nokkrar vikur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband