Eins og sprunginn blöðruselur

Það gerðust tíðendi á Nesi. Meira um það seinna. En upphafið var sumsé það að hlauparar mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug. Þetta var slíkur aragrúi fólks að engin leið er að muna alla en þó skal getið próf. dr. Keldensis sem ekki hefur sézt mikið í seinni tíð, Helmut, Flosi, Þorvaldur, Einar blómasali, dr. Jóhanna, Hjálmar, Haraldur, Gummi Löve, Heiðar sálfræðingur, Ósk, Magga, Maggie, skrifari og einhver sem kennsl voru ekki borin á - gott ef ekki Kaupmaður líka.

Menn biðu í ofvæni úti á Plani eftir Möggu. "Magga, hvað eigum við að gera?" var spurt. Það voru Bakkavarir. Nokkuð sem skrifari er alveg hættur að leggja fyrir sig. Hersingin tók strikið út á Nes. Farið um Víðirmel niður í Ánanaust og svo á Nes. Skrifari var fremstur framan af, en smásaman seig hann aftur úr og niðurlægingin var fullkomnuð þegar blómasalinn sigldi fram úr honum áður en komið var í Seltjarnarneshrepp. Um leið voru einhver óheppileg ummæli látin falla sem voru til þess fallin að særa viðkvæmar sálir.

Skrifari hélt ró sinni. Hann þekkir blómasalann. Hann veit að rembingurinn fer fljótlega af honum, hann slappast og fer að gefa eftir. Ekki hafði lengi verið hlaupið á Nesi þegar skrifari náði blómasala og fór fram úr með glæsilegum spretti, en sýndi þann manndóm og þroska að viðhafa engin særandi ummæli í leiðinni. Vissi sem var að spretturinn var nægileg svívirða og móðgun.

Eftir þetta minnti blómasalinn einna helst á sprunginn blöðrusel, fyrst heyrðist tiplið, en svo dó það út og leit einna helzt út fyrir að hann væri hættur hlaupi. Skrifari hélt hins vegar reisn og tempói, fór út hjá Gróttu og Bakkatjörn, en sleppti golfvelli. Tilbaka í norðangjólu og var ekki vanþörf balaklövu. Það var farið um Lambastaðahverfi milli húsa til þess að verjast vindinum. Tilbaka á góðu tempói. Ekki sást til blómasalans á þessum tíma.

Pottur magnaður. Þangað mættu Kári og Anna Birna, en Anna Birna heldur í víking til Ástrallalíu á miðvikudag, flýgur til Lundúna, Singapore og ég veit ekki hvað og hvað, verður 30 klst. á leiðinni. Kemur ekki tilbaka fyrr en á Sumardaginn fyrsta. Mikið rætt um mat, Þorvaldur í stríði við landlækni út af léttmjólkurstefnu yfirvalda, en menn hugsuðu jafnframt til hans Bigga okkar sem þarf að láta hreinsa stíflaðar æðar. Megi honum vel farnast og mæta fljótlega að nýju í hlaup. Uppskrift dagsins: Kobbi flugmaður. Fyrsti Föstudagur á föstudag og einna helzt að heyra að Kári ætlaði að slá upp durum sínum í tilefni af grasekkilsstandi og það veit minn herra að verður vín og villtar meyjar! Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband