Fagur sunnudagur

Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni í fjögurra stiga frosti, stillu og heiðskíru: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur, skrifari og Einar blómasali. Tekin fyrsta rispa á Plani áður en lagt var upp. Svo mjakaðist hópurinn af stað í þokkalegu færi niður á Ægisíðu. Allnokkuð rætt um fjárhagsleg málefni frá ýmsum sjónarhornum og leið furðu langur tími þangað til talið barst að mat og erum við þó stödd á Þorra miðjum. Fremur kalt að hlaupa í dag og ekki víst að menn vildu staldra við á tilgreindum stöðum jafnlengi og allajafna. Skrifari þungur á sér eftir þorrablót gærkvöldsins.

Í Nauthólsvík kom vísbendingaspurning: hvað hefur Baldur Símonarson sótt margar jarðarfarir á árinu? Það komu ýmsar ágizkanir, skrifari sagði 12, en rétt svar mun vera 13, en ekkert horn. Gengið skamma stund áður hlaup var upp tekið af nýju og stefnan sett á kirkjugarð. Hér sagði Jörundur frá því er hann beindi Kirkjuhlaupi annarsdags jóla inn að leiði Brynleifs og frú Guðrúnar og sagði sögu þeirra yfir 60 manna hópi hlaupara og fór rangt með öll meginatriði frásögu, alveg eins og Ó. Þorsteinsson hefur kennt honum hana.

Næst var tekið fyrir forsetaframboð á vori komanda. Upp er komin sú tilgáta að sitjandi forseti muni gefa frá sér framboð. Við svo búið mun Guðni Ágústsson standa með pálmann í höndunum og kastljósið á persónu sinni og vitanlega mun hann ekki bregðast okkur heldur gefa kost á sér. Verða þá ekki framar froskalappir eða gæsalifur í boði á Bessastöðum, heldur hafragrautur og súrt slátur með og e.t.v. mjólkurglas. Utanferðir leggjast af og samskipti við erlendar þjóðir falla niður. Nú fór skrifari að segja frá næstu Brusselferð og blómasalinn pantaði Jameson og súkkulaði.

Útvarpshæðin var söm við sig og áfram var haldið um Hlíðar, Klambra og ekki stoppað lengi. Á Sæbraut greip eitthvert óskiljanlegt kapp blómasalann og hann setti allt á fullt, skildi aðra hlaupara eftir og linnti ekki látum fyrr en við Laug. Hópurinn tvístraðist meira eða minna við þetta, utan hvað við Jörundur héldum hópinn frá Hörpu og til loka hlaups. Þetta var nú bara allt í lagi.

Potturinn mannaður hefðbundnum gestum og rætt um Lyfjafræðingatal. Síðan var hluti umræðu morgunsins endurunninn og endurfluttur samkvæmt hefð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband