Þriggjabrúa í hríðarbyl og suðvestan strekkingi

Aðeins harðdálkar og karlmenni mætt í dag, sólskinshlauparar kusu að dvelja heima. Fremstar meðal jafningja þær Ósk og dr. Jóhanna, aðrir: Þorvaldur, Maggi, Einar blómasali, Snorri, Haraldur, Hjálmar, skrifari, Helmut, Gummi Löve - og svo náði Frikki okkur við Kirkjugarð. Engin spurning um vegalengd: Þrjár brýr eða dauði. Nema hvað Maggi og Þorvaldur voru búralegir og gáfu ekkert upp. Jóhanna upplýsti okkur um að hún hefði hitt hann Villa okkar og sagt að við söknuðum hans. Villi hafði einhver orð um það að gaman yrði að mæta til hlaups næsta sunnudag eftir Hreppakeppnina á föstudag þar sem Garðabær tekur þátt, þó ekki væri nema til þess að sjá hlandkoppasvipinn sem Jörundur og Ó. Þorsteinsson setja upp þegar þeir reyna að sýnast gáfaðir.

Lagt upp á rólegu nótunum, nema hvað sumir fóru hraðar en aðrir af stað. Við héldum hópinn Magnús, Einar, Helmut og skrifari. Magnús sagði Kirkjuráðsbrandara sem hægt var að hafa gaman af. Svo voru sagðar sögur af Alþingismönnum og var hlegið vel að þeim. Við töltum þetta í þokkalegu færi og með vindinn í bakið, bjuggumst jafnvel við að þurfa að taka strekkinginn í fangið á heimleiðinni. Menn höfðu áhyggjur af útfærzlu Schengen-svæðisins og afleiðingum þess næsta sumar, en skrifari bað menn að gæta orða sinna.

Það kom engum á óvart að þeir Þorvaldur og Magnús beygðu af í Nauthólsvík og styttu. En við Helmut og blómasalinn héldum áfram á Flanir og settum stefnuna á Boggann. Héldum kompaní og enn náði blómasalinn að hanga í okkur, en þegar kom í brekkuna fór að draga af honum og hann dróst aftur úr. Við dokuðum við eftir honum á Bústaðavegi og saman lögðum við á Útvarpshæðina. Ekki dugði það til að hann héldi í við okkur, en við héldum okkar striki og settum upp hraðann á Kringlumýrarbraut og alla leið niður á Sæbraut. Þar dokuðum við loksins við eftir Einari.

ÍSLAND VAR AÐ VINNA NOREG Í HANDBOLTA 34-32!!!!!

Sæbrautin var skelfileg, suðvestangarri í fangið alla leið og linnti ekki fyrr en við Hörpu. Vestið rifnaði utan af mér á leiðinni, svo stífur var vindurinn. Við fórum rólega tilbaka, en töltum þó upp Ægisgötuna án hvíldar. Stoppuðum á Landakotshæð og biðum eftir Einari. Þá tók hann upp gamalkunna takta, fór fram úr okkur og greikkaði sporið. Við Helmut leyfðum honum þetta, e.t.v. fengi hann eitthvað út úr því að "vinna" hlaupið. Svo fór þó ekki, því hann var strand á rauðu ljósi við Hringbraut og við kláruðum þetta saman. Frábært að koma tilbaka eftir hlaup við þessar aðstæður. Teygt í Móttökusal.

Potturinn var yndislega heitur og þar sátum við Helmut, Jóhanna, Einar, skrifari og Frikki og áttum gott spjall um ýmisleg málefni. Alltaf erfitt að hafa sig upp úr og fara að klæða sig í kuldanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband