Kleinuát eyðileggur hlaup

Er þetta breyskleiki? Er þetta græðgi? Eða bara minnisleysi? Hvernig geta menn sem hafa lýst yfir löngu hlaupi eyðilagt sama hlaup með því að borða fjórar stórar kleinur daginn langan og ekkert annað? Og eru svo hissa á því að þeir fá í magann í miðju hlaupi! Hvað er kleina? Fita og óhollusta. Um þetta fjallar pistill dagsins.

Mætt í hlaup: Einar blómasali, Þorvaldur, Helmut, Magga, Ragnar, Gummi Löve, Dagný, skrifari, dr. Jóhanna, Jóhanna Ólafs, Kaufmann Friedrich, Hjálmar, og einhverjir töldu sig sjá Harald í myrkrinu. Sumir ætluðu í Powerade á morgun og því ekki á því að fara langt; aðrir einbeittir í því að fara Þriggjabrúa, þ. á m. blómasalinn, skrifarinn og Helmut.

Svo einkennilega vildi til að þrír hlauparar ráku lestina: blómasali, skrifari og Dagný. Ekki leiddist henni Dagnýju, hún hló við hvert orð okkar blómasalans og hafði á orði hvað við værum skemmtilegir menn. Okkur þótti gott hólið. Vorum ekkert að flýta okkur, nutum ágæts veðurs og sæmilegrar færðar, hún versnaði þó er á leið hlaupið.

Helmut dokaði við eftir okkur í Nauthólsvík og blómasalinn var farinn að hægja á sér. Hér lýsti hann yfir því að hann væri kominn með magaverk og treysti sér ekki lengra. Hann var skammaður fyrir græðgi og sagt að það væri ekki nauðsynlegt að gleypa í sig fjórar kleinur, það þyrfti ekki að henda þeim, kleinur mætti frysta. Hann játaði á sig vanhelgi og þótti greinilega miður að hafa eyðilagt hlaupið með vanhugsuðu mataræði á hlaupadegi.

Við Helmut og Dagný héldum áfram á Flanir og var ákveðið að fara rólega. Hér fór færðin að valda okkur leiðindum, laus snjór á jörðu og hálka undir, eitt skef áfram, tvö afturábak. Við upp Boggabrekku og var Dagný greyið svolítið þung á sér, enda ekki búin að hlaupa síðan á Gamlársdag. Dokað aðeins við og svo áfram hjá RÚV, um Leiti og Fram, Kringla niður að Sæbraut. Fátt tíðinda að Hörpu, Hafnarhverfi og Ægisgata tekin með trompi. Þá var afgangurinn formsatriði.

Það var dapurlegt að koma tilbaka til Laugar, þar sást einungis Hjálmar í einhverju reiðileysi og svo Þorvaldur á hefðbundnu róli. En við Helmut vorum kátir að klára gott Þriggjabrúahlaup í góðu veðri. En fögnum, bræður og systur! Á föstudag ætlar blómasalinn að bjóða upp á heimili sínu at Reynimelis til þess að bæta fyrir kakó og Fyrsta. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband