Sjálfbær eymd Hlaupasamtakanna, eða "Hvað er að Bigga?"

Fullkomin óvissa ríkti í kvöld um aðstæður til hlaupa eftir þær kárínur sem hlauparar hafa mátt þola af hálfu himnafeðga og borgaryfirvalda undanfarna daga með því að verstu hugsanleg skilyrði hafa verið til hlaupa og borgin ekki gert neitt til að bæta úr því. Það hafði snjóað og ekki að vita nema yndir væri hálka sem gæti komið upp úr á varasömustu stöðum og gert okkur grikk. Engu að síður var ágætlega mætt til hlaups og ber þar fyrstan að nefna sjálfan Jörund sem ekki hefur sézt í hópi vorum um langt skeið, aðrir: Flosi, Helmut, Hjálmar, Ósk, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Kári, Snorri, Gummi, skrifari - og síðar birtist Frikki í myrkrinu og það spurðist einnig til Haraldar.

Helmut kom með tillögu um hefðbundið. Í þessu sambandi er "hefðbundið" Víðimelur, Suðurgata, Skítastöð, Ægisíða, Skjól, Nes og svo ýmsir varíantar eftir það, ýmist Eiðistorg eða Lindarbraut. Vel var tekið í þessa skýru hugmynd og ekki dvalið lengi við heldur lagt í hann. Veður var í reynd hið ákjósanlegasta, 2 stiga hiti, snjór á jörðu sem gerði að verkum að það var vel hægt að hlaupa, nánast logn, snjóaði öðru hverju. Skrifari hljóp framan af með fremsta fólki og heyrði konur skrafa sín á milli um að Hlaupasamtökin væru í raun karlaklúbbur.

Trabantklúbburinn á sínum stað, en aðrar skiptingar eftir hefðinni. Á Suðurgötu náði blómasalinn skrifara með erfiðismunum og fylgdumst við að eftir það til loka hlaups. Flosi hafði farið á undan okkur og fór einhverja tóma vitleysu sem enginn áttaði sig á. Það var farið að snjóa og við vorum báðir þungir á okkur. Ekki vantaði umræðuefnin og féll aldrei niður spjall okkar þennan klukkutíma sem við hlupum. Við mættum sumsé Frikka þarna í myrkrinu í Skerjafirði, en ekki vissum við á hvaða ferð hann var. Stuttu síðar dúkkuðu upp hlauparar af Nesi, allir klæddir í sams konar búning, og mátti bera kennsl á Denna Skransala þar á meðal, en ekki var hann með fremstu mönnum í þetta skiptið eins og á föstudaginn.

Það var alveg inni í myndinni að hætta við Hofsvallagötu, en ég var í miðri frásögn og því var ekki um annað að ræða en halda áfram um Skjólin til þess að unnt væri að halda áfram sögunni. Eftir það kom ekkert annað til greina en fara Nesveginn alla leið út á Nes, en beygja þó af við Eiðistorg, fara niður á Norðurströnd og þá leið tilbaka um Lýsi, Grandaveg, Víðimel og svo sem leið liggur til Laugar. Þetta var rúmlega klukkutímatúr og lagði sig á slétta 10 km. Góð tilfinning að klára gott hlaup. Einhverjir aðrir fóru út á Lindarbraut og tóku þéttinga sem enduðu víst með skelfingu í einhverjum tilvikum.

Teygt í Móttökusal og gekk á með gamansögum. Pottur magnaður. Þar mætti Biggi, spikfeitur og óhlaupinn. Menn gerðust existensíalískir og fóru að tala um eymdina, og komust menn að þeirri niðurstöðu að sjálfbærni Hlaupasamtakanna fælist í eymdinni. Áður en Biggi kom til potts var um hann rætt og hlaupaleysi hans, einhver spurði: "Hvað er að Bigga?" Menn öskruðu af hlátri þegar spurningunni hafði verið ýtt úr vör. Bókmenntafræðileg analýsa á heimildarmynd um sr. Jón Ísleifsson sem var á RÚV í gærkvöldi. Síðan barst talið að alvörunni: hlaupum og göngum sumars. Dr. Jóhanna og Ósk hafa tekið að sér að skipuleggja göngur sumarsins, en atkvæði voru greidd um Laugaveg og virtist vera stemmning fyrir þátttöku af nýju í sumar. Ekki færri en átta hlauparar í Potti virtust ekki fráhverfir því að fara enn á ný um sandana.

Margt framundan og margs að hlakka til. Næst: Þriggjabrúa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband