"Varst þú nokkuð með þessa hárgreiðu?"

Ýmislegt skondið gerist í Útiklefa. Meira um það seinna. En upphaf þessa máls er að til Laugar Vorrar mætti fjöldi góðra hlaupara, þeirra á meðal: Jörundur, próf. Fróði, Magnús, Flosi, Karl, Einar blómasali, Bjarni Benz, Ólafur skrifari, Kári, Magga þjálfari, dr. Jóhanna, Helmut, Pétur, Haraldur, Ragnar, Jóhanna Ólafs og Benedikt. Vona að ég gleymi engum. Veður fagurt, heiðskírt, stilla og hiti um 8 gráður. Engin leiðarlýsing var gefin upp fyrir hlaup, en þvagan lúsaðist af stað orðalaust og virtist fylgja einhvers konar forritun.

Ágúst sagði frá síðustu uppgötvun sinni, "ákjósanlegri" hlaupaleið upp á 40 km sem hentar vel miðlungshlaupurum eins og félögum Hlaupasamtakanna. Hann kvað helzta ókostinn vera þann að menn þurfa að byrja nógu snemma til þess að lenda ekki í myrkri. Það var einmitt það sem hann óttaðist mest í hlaupinu, myrkrið, hann kvaðst vera hræddur við myrkrið og það sem í því dylst. Við reyndum að hughreysta hann og sögðum að það væri engin ástæða til þess að vera hræddur.

Jörundur sagði frá viðtali við Styrmi Gunnarsson sem hann hefði verið sammála að þessu sinni. Þar sagði gamli Moggaritstjórinn að það þyrfti að skera niður alla stjórnsýslu til þess að bæta fyrir afleiðingar hrunsins. Skrifari var ósammála þessu, enda starfsmaður hins opinbera og er að drukkna í verkefnum sem ekki sér fyrir endann á.

Skrifari var óvenju léttur á sér að þessu sinni og hékk í prófessornum langleiðina inn í Nauthólsvík, en á undan fóru þekktir hraðafantar, að baki voru þó gizka góðir hlauparar eins og Helmut, Flosi og Jörundur. Það er góð tilfinning að koma tilbaka eftir 10 daga fjarveru og vera þó enn í þetta góðu formi. Ég lenti í slagtogi við dr. Jóhönnu og blómasalann, Jóhanna dottin í sama vanann og blómasalinn að neyta fæðu fyrir hlaups sem eyðileggur æfinguna. Mættum dr. Friðriki Guðbrandssyni sem var úti að ganga með hund sinn.

Við Öskjuhlíð ákváðu Einar og Jóhanna að halda til Hlíðar í brekkuspretti, skrifari áfram í humátt á eftir prófessornum og í Suðurhlíðina. Var í góðum gír og hélt ágætu tempói. Ekki varð ég var við aðra hlaupara á eftir mér, en eftir hlaup kvaðst Jörundur hafa farið sömu leið, snúið þó tilbaka inn í Nauthólsvík á Flugvallarvegi, meðan skrifari fór hjá Gvuðsmönnum tilbaka um Hringbraut. Gaf jafnvel svolítið í á Hringbraut og lauk góðu hlaupi í góðum fílíng.

Teygt á Plani áður en haldið var til Potts. Þar lögðu Hlaupasamtökin undir sig Barnapottinn og flæmdu burtu aðra gesti með ófagurri ásýnd að því er ég tel. Oftlega kom fyrir að fólk nálgaðist pottinn en hörfaði frá þegar það rak augun í félagsmenn Samtaka Vorra, engir sérstakir nefndir. Nú gerist það sem oftar að menn fara upp úr. Skrifari heldur til Útiklefa og þangað koma einnig Kári og blómasalinn. Fyrir er karl nokkur sem hefur skolað af sér og er að klæðast. Hann er við það að hverfa á braut þegar skrifari rekur augun í frekar groddalega hárgreiðu á gólfinu og spyr (með magann fullan af góðum ásetningi): "Varst þú nokkuð með þessa hárgreiðu?" "Ertu að grínast í mér?" segir tattóveraður maðurinn og bendir á snöggklippt höfuðið. Kári og blómasalinn bogna af gleði meðan maðurinn gengur á braut og skrifari biðst innvirðulega afsökunar á þessum mistökum.

Á miðvikudaginn er langt, jafnvel 69+.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband