Hneykslun, gremja, forneskja

Þar ber fyrst niður frásögu af hlaupi kvöldsins að ritari var mættur upp úr kl. 16 til Laugar og fann þar á fleti fyrir í Útiklefa Þorvald Gunnlaugsson. Það var rætt um ýmislegar kröfur sem gerðar eru til nútímakarlmannsins, og nánar um ímynd karlmennskunnar. Svo bættist Bjarni við og þá víkkaði umræðurefnið, á góma bar vinátta, nánar tiltekið vinátta einstakra félaga Hlaupasamtakanna við einmana álitsgjafa í Garðabænum. Svo komu þeir hver af öðrum, próf. Fróði, Flosi, Ragnar, Frikki, Rúna, Jörundur, Kalli, Biggi á hjóli - svo sást René koma gangandi. Þar er maður á ferð sem getur hjálpað feitlögnum framkvæmdastjórum að losna við yfirvigt.

Veður aldeilis með ágætum, logn, hiti 14 stig, bjart yfir. Á föstudögum er hefðbundið, þá er ekki breytt til. Því var farið eftir Sólrúnarbraut og austur úr á ákjósanlegum hraða. Við héldum hópinn. Allt þar til við komum í Skerjafjörð, þá voru þeir prófessorinn og Flosi farnir að derra sig og skildu okkur hina eftir. Það var þeirra skaði, því að í hópnum sem á eftir kom fóru fram miklar umræður um ræktun hvers konar, persónur og náttúru. Um það var rætt hver lausn það væri að verða frír við áþján stöðugrar kynhvatar. Þarna þjöppuðu sér saman nokkrir góðir hlauparar sem héldu hópinn að mestu leyti til loka, nánar tiltekið Þorvaldur, Jörundur, Benzinn, Ragnar og aðalritari.

Rætt um nýjasta tölublað af Héraðsfréttablaði Vesturbæjarins, þar sem er grein í tilefni af 25 ára afmæli Hlaupasamtakanna og mynd af helztu hlaupurum. Var það gagnrýnt hversu knappar upplýsingar voru og misvísandi. T.d. var ekki minnst á Formann Samtakanna, né heldur Aðalritara. Þótti þetta dæmigert fyrir íslenzka blaðamennsku nú um stundir: ekkert nema yfirborðsmennska, útúrsnúningar og rangfærzlur.

Við fórum furðu hratt yfir, á bilinu 5:30-5:40, og svitnuðum vel í hitanum. Bjarni varð mjög ógnandi við hjólafólk sem valdi stígana okkar til þess að hjóla á. Fórum um Nauthólsvík, á Flönum reif Jörundur upp fyrstu lúpínur vorsins, þó eru þær ekki farnar að dreifa sér. Upp Hi-Lux og brekkuna, meðfram kirkjugarði og yfir Veðurstofuhálendið, Söng og Skák og allt það dæmi.

Á Hlemmi sagði Þorvaldur skilið við okkur og fór Laugaveg, við hinir fórum Sæbraut. Við sögðum: verði honum að góðu að þvælast fyrir fólki í innkaupaleiðöngrum. Fyrir framan okkur fóru Flosi og próf. Fróði og enduðu með að lengja út í Ánanaust, við hinir vorum hæverskari. Enduðum með að signa okkur á Landakotshæð frammi fyrir durum Kristskirkju.

En hlutirnir fóru fyrst að gerast þegar komið var tilbaka til Laugar. Þar gat ritari sagt söguna af því þegar hann ásakaði blómasalann um að hafa sullað niður hársápu í tösku hans á sundmorgni. Blómasalinn fyrtist við og rauk burt í fússi. Tveimur stundum síðar upplifði hins vegar ritari kennd sem hann hefur ekki kynnst áður. Þurfti að fletta upp í orðabókum og sálfræðiritum áður en hann áttaði sig á því að þetta er kennd sem kallast samvizkubit (hér fussaði próf. Fróði), og ákvað að biðjast afsökunar. Hér varð prófessorinn aldeilis dolfallinn og heimtaði umræðu um brottrekstur ritara úr Hlaupasamtökunum. Hér var margt um rætt á Plani og voru margir bæði hneykslaðir og gramir. Prófessorinn mun semja áætlun fyrir Jörund og ritara fyrir Reykjavíkurmaraþon.

Í pott mættu auk framangreindra, Kári og Anna Birna, og Biggi. Einhvern veginn komst á flot ró með óljósan uppruna. Biggi stillti henni upp á höfuð sér og kvaðst þurfa ró. Aðrir viðstaddir töldu hins vegar að hér væri komin skrúfan sem er laus og þarf að festa. Rætt um hot joga, sem er víst engin nýlunda ef marka má jógann.

Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband