Hlaupið á sunnudegi og lagðar línur um afmælisfögnuð

Á sunnudagsmorgni voru mættir nokkrir af ágætustu hlaupurum Hlaupasamtakanna, nánar tiltekið þessir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi, Einar Breiðdal og Ólafur ritari. Veður fagurt, heiðskírt, hægur vindur og hiti nálægt 10 stigum. Einhverjir höfðu þreytt Neshlaup í gær í norðanbáli og voru sagðar af því sögur, einkum góðum viðurgjörningi og fögrum konum. Maður skilur ekki alminnilega hvað það er sem rekur menn til hlaupa.

Á Sólrúnarbraut var rætt um flokkunarfræðina og hvar mætti marka Einari bás í mannlegu félagi. Niðurstaðan varð sú að hann mætti kallast í periferíu menningarinnar þar eð hann hefði sýnt af sér ættfræðilegan hæfileika í síðasta hlaupi meður því að hann gat tengt saman tvo einstaklinga ættarböndum. Einnig var rætt um afmælið og nánari útfærzlu þess. Stefnt verður að því að útvega verðugan lókal og mun Formaður vor ganga í það mál. Þá verður sent út boð til félaga með fyrirspurn um áhuga. Heimaunninn próvíantur: forréttur, aðalréttur og eftirréttur. Heiðursgestir.

Stoppað í Nauthólsvík og hugsað til Magnúsar. Sagðar fallegar sögur. Lúpínan á Flönum er að taka við sér - verk er að vinna framundan. Sögur sagðar af veikindum og hjónaskilnuðum. Rætt um inntak hjónabandsheitsins og sérstakt átak gert til að útskýra fyrir blómasalanum varanleik þess. Spurt um Jörund.

Það var þetta hefðbundna, staldrað við hús á Klömbrum og dáðst að þakinu. Þakið er ættað úr heildsölu Einars Breiðdals úr Sindrastáli. Ekkert óvænt eftir þetta annað en farinn var hefðbundinn hyllingartúr um Austurvöll, en fáir þar til þess að hylla glæsilega hlaupara.

Nú vildi svo til að mættir voru allir helztu pottverjar og varð mikil umræða um margvísleg málefni, sumt af því endurunnið frá því í hlaupinu. Út af stendur þetta: á morgun fer fram ljósmyndun hóps hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins fyrir Vesturbæjarblaðið í tilefni 25 ára afmælis hópsins. Er því brýnt að mikill fjöldi hlaupara mæti á skikkanlegum tíma. Vel mætt!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband