Nýr álitsgjafi

Meginumfjöllun dagsins var eðlilega frábær innkoma dr. Baldurs Símonarsonar í Kastljósi sl. miðvikudag, þegar hann birtist á sjónvarpsrúðunni óaðfinnanlega klæddur og snyrtur og minnti einna helzt á enskan lávarð. Í hlaupi dagsins rann upp fyrir okkur það fagra ljós að með oss væri nú fæddur nýr álitsgjafi og héðan eftir yrði leitað æ meira í vizkubrunn dr. Baldurs þegar ræða þyrfti hvaðeina er til framfara horfir í Vesturbænum. Meira um Baldur síðar.

Mættir voru þessir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Einar blómasali og Ólafur ritari. Hlýtt í veðri, en þó norðangjóla sem kældi þegar komið var norður fyrir. Nafni minn klæddur í eldrauðan búning og á stuttbuxur, allt gert til að æra lögmenn Möller og Schram - ef þeir skyldu vera á stjái. Við töldum að Jörundur hefði orðið ánægður með svo rauðan lit. En Jörundur var hvergi sjáanlegur.

Farið út í rólegheitum og dólað sér. Nú var rætt um afmæli Hlaupasamtakanna sem halda þarf upp á fljótlega. Formaður bauðst til þess að hýsa þennan merkisviðburð og lagði til að boðið yrði sumum af helztu frumkvöðlum Samtakanna og margar ræður fluttar. Eins og af sögulegri tilviljun mættum við svo dr. Jóni Braga og köstuðum á hann kveðju. Stuttu síðar hleypur okkur uppi ung kona sem segir okkur svo flotta að hún vildi helzt hlaupa með okkur. Hún var greiinilega á hraðför og fór fram úr okkur. Við það tekur Þorvaldur viðbragð og slæst í för með henni. Þau skilja okkur hina efitr. Þetta var í Skerjafirði. Okkur leist ekki á þetta, gat ekki endað vel. Jæja, í Nauthólsvík snýr Þorvaldur við og er þá búinn að pumpa öll helztu æviatriði konunnar úr henni, aldur, hjúskaparstöðu, barneignir, hlaupaklúbb, skóstærð og ég veit ekki hvað.

Mikill krans er kominn í Kirkjugarð til heiðurs þeim sem féllu í Síðari heimsstyrjöldinni. Við veittum því athygli að trén í garðinum og gróður allur er að koma til. Mikil breyting frá því í síðustu viku. Það var afar hlýtt í veðri og menn urðu að létta aðeins á fatnaði, svitinn bogaði af okkur. Áfram hefðbundið um Veðurstofu og Hlíðar, tekin fyrir varðhaldsmál af ýmsum toga. Rætt um ættir sérstaks saksóknara, en afi hans mun hafa verið Haraldur Guðmundsson ráðherra og formaður AlþýðufloRkksins.

Tekið á því á Klambratúni, en rólega út Rauðarárstíg. Við Hörpu lýsti blómasalinn fyrir okkur framkvæmdum, m.a. ætti að setja klippt ál á þak sem væri margfalt dýrara en t.d. kopar. Byggingin á að vera tilbúin 2011 - nánari dagsetning fæst ekki. Við fórum um Miðbæ, framhjá Kaffi París í von um að verað hylltir, en þarna voru þá aðeins gestir sem ekki kunna að meta íturvaxna, miðaldra hlaupara á sunnudagsmorgni. Upp Túngötu og þannig til Laugar.

Pottur þétt setinn. Hér var dr. Baldur hetja dagsins og baðaði sig í aðdáun viðstaddra. Rætt um skáld, Vilhjálm frá Skáholti og Ástu Sigurðardóttur, hvort tveggja Vesturbæingar. Svo gerðist óvæntur atburður: Baldur hóf að þylja upp bílnúmer í Reykjavík líkt og hraðaspurningar og Ólafur Þorsteinsson átti að svara: hver átti bíl með þessu númeri? Ekki stóð á svörunum. Stundum skaut Ólafur spurningu á móti: en hver átti R-24? "Það veit ég ekki," sagði Baldur. "Ja, þá veiztu ekki mikið!" sagði frændi þá.

Enn eitt frábært sunnudagshlaupið að baki - á morgun er mánudagur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband