Fegurð og vinátta í Fossvogi

Hópur einvalahlaupara mættur til hlaups og mátti vart á milli sjá hvaða andlit lýsti mestri gleði og eftirvæntingu. Er eitthvað skrýtið að maður taki vart á heilum sér allan daginn í aðdraganda hlaups af einskærri hamingju yfir því að vera að fara að hitta félagana og spretta úr spori á nýjum skóm, á góðum degi, í góðu veðri, á þéttri undirstöðu, með hafið andandi við Ægisíðuna, mannlífið blómstrandi í görðum og á gangstéttum, hvarvetna blasa við myndir sem minna á endurnýjun lífsins, gróandann og vaxtarmegn náttúrunnar? Er hópurinn mjakaðist af stað varð á vegi okkar kampavínslit jeppabifreið R-158 sem hægði á sér, út um rúðuna spennti ökumaður upp skjáina og taldi sauði sína. Engin leið að ráða við sig á degi sem þessum, Benedikt og blómasalinn ráða sér ekki og spretta úr spori. Ritari telur að þetta geti ekki enst lengi. "Hversu lengi?" spyr Margrét. "2 km" spáir ritari. Hann reynist sannspár. Þeir eru stopp við Drulludælu.

Áfram veginn, engin leið að hætta. Prófessor Fróði reynir að æsa menn upp í langt, helzt 30 km - og alls ekki styttra en 22. Menn taka þessu vel - en þjálfarar eru fastir í einhverju sem þeir kalla "hefðbundnu" miðvikudagshlaupi - Þriggjabrúa! Eins og það sé aldrei hægt að breyta til! Eftir 2 km spyr Benedikt hvort ekki sé ætlunin að taka tempó. Rúnar kveður jú við, en hann sé maður gamall og þurfi að hita upp fyrst. Ritari áréttar að ávallt beri að hlaupa að lágmarki 5 km áður en menn taka tempó.
 
Í Nauthólsvík eru blómasalinn, Flosi og prófessorinn á undan ritara og Þorvaldi og skammt undan eru Rakel og Dagný. Hér heimtar ritari sjóbað. Menn taka því ekki ósennilega, en niðurstaðan verður engu að síður sú að bíða með það enn. Hér vantar fólk eins og Gísla, dr. Jóhönnu og Helmut - þeirra er sárt saknað! Dömurnar og Þorvaldur stytta um Hlíðarfót, en aðrir áfram. Þegar komið er yfir Kringlumýrarbraut sézt að Flosi fer upp brekku hjá Bogga, en prófessorinn lónar við stjóra. Hópur hlaupara kemur á móti okkur, líklega bæði Laugaskokk og ÍR-hópur, m.a. Sif Jónsdóttir langhlaupari. Prófessorinn situr fyrir okkur blómasalanum og hefur okkur greinilega grunaða um gæzku.

Hér er gerður stanz og menn velta vöngum. Hvert á að fara? Niðurstaðan sú að við blómasali förum Stokk, en prófessorinn lengir í 20 km. Við niður hjá Bununni vestast í Fossvogi, hún er enn mannhæðarhá og mikið vatn að hafa. Nú tekur við einhver fegurstur hlaupakafli í gervallri Reykjavík, hér er jafnan gott veður, fagurt mannlíf og hér dafnar vináttan manna í millum. Við fórum fetið félagarnir og manni varð hugsað til þess hvað maður væri ríkur að eiga svona góða vini sem legðu það á sig að þrælast með mann bæjarenda á milli og hlusta á þvaðrið og kvabbið í manni!

Út í hólmann og yfir tilbaka. Við upp Stokkinn, en Ágúst norður úr, út á Langholtsveg og niður að sjó. Síðan hélt hann sem leið lá og linnti ekki ferð sinni fyrr en í Ánanaustum, svo tilbaka til Laugar um Grandaveg, Víðimel og Hofsvallagötu. En við Einar fórum Stokkinn og tókum vel á því, ræddum m.a. um löggiltar iðngreinar og mismunandi hæfni- og þekkingarkröfur í ólíkum iðngreinum.

Upplýst að n.k. laugardag fer fram samskokk hlaupahópa í Reykjavík frá Árbæjarlaug. Eru félagar hvattir til að fylgjast með starti á Hlaupadagbókinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband