Kvaran er ilskór

Í Njálu í útgáfu Jóns heitins Böðvarssonar er að finna eftirfarandi orðskýringu: kvaran = ilskór. Kvaran er tilgreint sem viðurnefni á írskum baráttumanni. Jón var lagður til hinztu hvílu í dag. En í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar safnaðist saman nokkur fjöldi hlaupara, eða nánar tiltekið þessir: Jörundur, Bjössi, Magnús, Flosi, Kári, Sigurður Ingvarsson, Ósk, Ólafur ritari, Anna Birna og Bjarni Benz. Jörundur var með tilgátu um hvað hefði skilað Einari blómasala þessum góða árangri í Parísarhlaupi. Þar ætti frú Vilborg allan heiðurinn því hún sýndi þá forsjálni að snoða kappann áður en hann lagði upp í ferð sína. Þetta varð til þess að hann var bæði léttari í hlaupinu sjálfu og mætti minni mótstöðu en ella hefði orðið.

Það voru bara þessir hlauparar, að viðbættri Rakel, sem kom seint. Við lögðum upp og vorum opin fyrir öllu í góðviðrisblíðu, það var nánast logn, 10 stiga hiti og jafnvel sól á köflum. Menn urðu að fækka fötum á leiðinni til þess að kafna ekki úr hita. Ýmislegt í boði, Hlíðarfótur, Suðurhlíð og Þriggjabrúahlaup. Ritari veit að segja frá því að hann, Jörundur, Benzinn, S. Ingvarsson, Ósk og Flosi fóru Þriggjabrúahlaup og það á töluvert hröðu tempói. Það hvarflaði að manni að fara í sjóinn, en af því varð ekki. Þó hlýtur að koma að því að ekki verði undan því vikist að skella sér í svalandi Atlanzhafsölduna. Hér sakna menn skörunga á borð við Gísla Ragnarsson sem heldur reglu á hlutunum.

Eftir brekkuna erfiðu við Boggann var gefið í og þar stjórnaði Benzinn ferðinni, en þau Flosi, Ósk og Siggi voru horfin okkur. Við tókum góðan þétting frá Miklubraut og niðurúr. Við Jörundur drógumst aftur úr þar eð Benzinn sýndi mikinn glæfraskap við að koma sér yfir umferðaræðar. Svo sáum við að hann náði með ótrúlegum krafti að draga Flosa uppi á Sæbraut og eftir það sáum við Jörundur jafnan til þeirra, allt þar til er þeir hurfu okkur á Geirsgötu, en við fórum um Lækjargötu og Hljómskálagarð, en höfðum tekið góðan þétting á Sæbraut.

Plan og Pottur eftir fastri reglu, en á miðvikudag verður tekið á því - stemmning hlýtur að vera fyrir Goldfinger og Breiðholti. Mæta Parísarfarar? Nauðsynlegt er að skipa afmælisnefnd til þess að undirbúa 25 ára afmæli Hlaupasamtakanna. Spurning hvort það verði gert með veizlu kringum Samskokkið í sumar?  Pæling.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband