Hlaupið í suðaustanstrekkingi

Maður 1 lá í sófa sínum heima í stofu og las þunga bók. Frúin kemur heim úr vinnunni og fer að barma sér yfir löngum og erfiðum vinnudegi á stofnuninni. Þegar hún er búin að láta dæluna ganga góða stund segir maðurinn: "Hvað er í matinn?" Eftir þetta gengur maðurinn með lillablátt glóðarauga vinstra megin og telja kunnugir að hann hafi misst bókina í andlitið á sér.

Um þetta var rætt og margt fleira í Brottfararsal fyrir hlaup dagsins, m.a. afmæli Magnúsar hér um daginn. Fámennt en góðmennt, og var Denni af Nesi mættur. Auk hans Flosi, Ágúst, Björn, Ósk, Jörundur, Ólafur ritari, Þorvaldur, Rakel (kom síðar), Magnús - líklega ekki fleiri. Nú var frelsið algjört, og fengum við að ráða okkur að öllu leyti. Parísarfarar farnir og þreyta hlaup sitt á sunnudag, við munum fylgjast með.

Ákveðið að fara bakgarða í 107 enda langt síðan að það var gert síðast. Vindur á suðaustan og því ágætt að fresta því að takast á við mótvindinn. En ekki var því frestað lengur að fara í stríð er komið var út á Suðurgötu. Þetta var leiðindastrekkingur til að byrja með, en þegar komið var framhjá Dælu brast á með slíkum strekkingi að það var meiriháttarmál að halda áfram. En við helztu drengirnir fengum skjól af Ósk sem hljóp eins og herforingi á þessari leið. Erfitt og leiðinlegt hér. Við hefðum viljað hafa almennilegan snjóstorm i staðinn, að ekki sé talað um sandrok eins og var hér um árið þegar maður mætti sandblásinn tilbaka eftir hlaup.

Jæja, það var Hi-Lux og brekka. Við vorum þarna prófessorinn, Flosi, Björn, Ósk og ritari - aðrir eitthvað aðeins á eftir okkur. Svo var gefið í og farið um Veðurstofu, Söng- og skákskólann, Klambratún og þá var brostið á logn. Hlemmur og Sæbraut. Þá hafði undirritaður dregist aftur úr - sem var allt í lagi því að tempóið var allhratt.

Komið tilbaka til Laugar og teygt  á Plani. Þá kom þar að Rakel, sem hafði misst af upphafi hlaups. Pottur og galgopaháttur. Lögð drög að Fyrsta Föstudegi. Þorvaldur bað um frestun, en ekki var unnt að koma til móts við óskir hans. Menn voru einbeittir í því að láta ekki dragast frekar að halda hátíð í hópi vorum, ekki er vanþörf á.

Eftir hlaup var steðjað á Ljónið og innbyrtir ljúffengir borgarar og mikið drukkið með. Valinkunnir hlauparar mættir og voru lögð drög að frekara skemmtanahaldi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband