Farið langt með einum alvitlausum

Ekki það bitnaði á mér, en ég vorkenndi prófessor Fróða að þurfa að hlaupa með honum. En tildrögin voru þau að safnast var saman til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudegi eftir páska. Parísarfarar ætluðu Aumingja með snúningi, en við hinir ætluðum langt, höfðum á orði Goldfinger og Stíbblu. Mættir Einar blómasali, Eiríkur, Frikki Meló. Bjössi kokkur, Magnús hinn sextugi, Ágúst, Ólafur ritari, Tom, Ragnar, báðir þjálfarar, Benedikt, og Kári - og tvær konur sem mig vantar nöfnin á.

Það var Víðimelur og það var Dæla, við helztu drengirnir og Ósk héldum áfram, en þau hin ætluðu að sprikla í sprettum og enda á e-m 8 km. Jæja, hvað gerist við flugvöll? Kemur ekki S. Ingvarsson hlaupandi á móti okkur alhress, líklega búinn að hlaupa að heiman úr Grafarvogi, snerist á sveif með okkur og sneri við. Þeir skildu ritara fljótlega eftir einan og var það að líkendum: okkar maður bæði þungur á sér eftir páskana, illa sofinn og án næringarvökva. Auk þess hafði verið farið óþarflega hratt út.

Það verður að segja prófessor Fróða til hróss að hann fór hvers kyns þríhyrninga og lykkjur til þess að koma til móts við hæga ferð ritarans, en allt kom fyrir ekki, þeir hreinlega gátu ekki farið svona hægt yfir. Þeir voru tveir saman, prófessorinn og Tom. Varð það sögulegt. Hlutverk prófessorsins var það að halda aftur af hinum, sem átti það til að rjúka af stað á spretti í miðju hlaupi þegar átti að fara jafnt og rólega yfir. Þá átti hann til að henda sér niður á tvo fingur og taka tuttugu armbeygjur. Hann vildi fara þrjátíu, prófessorinn gekkst inn á að fara 24, upp að Stíbblu um Goldfinger eða þar um bil.

Jæja, ég náði þeim við Víkingsvöll og við lögðum í brekkuna góðkunnu. Hún er gamalkunn og erfið. En maður þrælaðist þetta og hélt áfram framhjá Goldfinger, undir Breiðholtsbraut, en sneri svo niður í Elliðaárdal í stað þess að fara upp í Breiðholtið og þá leið. Ég fann að ég myndi ekki klára meira en 20 í dag. Mætti fullt af hlaupurum, bæði í Fossvogi og í Elliðaárdal, þekkti einungis Sif Jónsdóttur langhlaupara.

Til að gera langa sögu stutta skal viðurkennt að þetta reyndist afar erfitt hlaup af framangreindum ástæðum, auk þess sem það kólnaði þegar leið á kvöld og það varð erfiðara að fá fæturna til að hlýða. Lauk 20 km hlaupi á rúmum 2 tímum og var dauðþreyttur á eftir. Teygðum vel í Móttökusal og hittum Benzinn þar, sem hafði enga skýringu á veru sinni þar, því ekki var hann að hlaupa. Meiri tiktúrur í Tom og heyrði ég það seinast og sá til þeirra prófessorsins, að prófessorinn var kominn niður í armbeygjur og hinn byrjaður að djöflast í honum með að styðja fæti á bak honum og prófessorinn hrópaði: "Nei, enga vitleysu, Tom!"

Á föstudaginn er kemur er Fyrsti Föstudagur samkvæmt réttu tímatali Hlaupasamtakanna. Hvað menn athugi.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll vertu, ritari góði, var ekki lagið að láta myndina sem þú tókst af mér eftir 25km++ með prófessornum fylgja færslunni?

http://blogs.palmbeachpost.com/step-by-step/files/2010/01/homer_running-1.jpg

Tomu-Tomu (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 20:32

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Er þetta ekki mynd af ritaranum eftir 20++  ?

Flosi Kristjánsson, 8.4.2010 kl. 22:15

3 identicon

Gæti verið hvorutveggja, Flosi minn, sá eini léttur í spori og brosandi var prófessorinn...

Tomu-Tomu (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband