Hrekkjusvín herja á reiðhjólaeigendur í Vesturbænum

Hrekkjusvín hafa hreiðrað um sig í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Ekki einasta eru grandvarir heimilisfeður í Vesturbænum lagðir í einelti, þeim er strítt í það endalausa með hvers kyns fráleitum uppátækjum sem ganga úr hófi fram. Meira um það síðar í þessari frásögn.

Það verður nú barasta að segjast eins og er að þjálfarar voru aldeilis grallaralausir þar sem þeir stóðu á Brottfararplani og höfðu enga hugmynd hvað þeir vildu láta menn gera. Á endanum var fallist á að fara um Víðimel út að Skítastöð og þaðan á Nes. Mættur allnokkur fjöldi hlaupara. Jörundur var búinn að lesa DV með viðtali við prófessor Fróða sem bar þá hógværu yfirskrift: Maraþon er bara upphitun. Hér skín í gegn lítillæti og hógværð eins og Hlaupasamtökin eru einna helzt þekkt fyrir.

Sumir fóru 34 til 36 km í gær og voru því kærulausir í dag. Farið afar hægt af stað. Æ fleiri skarta nú frumgerð yfirvaraskeggs og fara Hlaupasamtökin smásaman að líta út eins og deild í Village People. Einhver þyngsli voru í mönnum , jafnvel leti, enda mánudagur og heil hlaupavika framundan.

Hlaupið út að Skítastöð eða þar um bil og þá snúið í vestur og lagt á Nesið. Þjálfarar vildu að menn tækju ca. 1 km sprett einhvern tíma á leiðinni. Ritari var ekki að nenna þessu og ætlaði bara Aumingja, 6 km, ljúka hlaupi við Hofsvallagötu. En svo fór blómasalinn fram úr honum á Ægisíðu og tók stefnuna á Skjólin. Þá var ekki undan því vikist að halda á Nes. Við Jörundur áttum samleið og svo voru einhverjir að dóla sér í kringum okkur, Þorvaldur, Flosi, blómasalinn. „Jæja, kannski maður fari út að Eiðistorgi“ hugsaði þessi hlaupari.

Nei, nei, það var haldið áfram. Mættum Línu hans Magnúsar á Nesi og vörpuðum kveðju á hana. Hún spurði hvar Magnús væri – við sögðum sannleikann. Svo var bara haldið áfram, Benzinn og blómasalinn fóru í áttina að golfvelli, en við Jörundur fórum Lindarbraut og svo Norðurströndina tilbaka. Ég tók sprett einhvers staðar á leiðinni, líklega kílómetra eins og þjálfarar höfðu lagt fyrir, á tempóinu 4:40 eftir því sem Jörundur taldi.

Eftir pott kom ég út en fann ekki reiðhjólið mitt. Ég sá að blómasalinn og Benzinn voru eitthvað grallaralegir, og á endanum benti blómasalinn á stað við hliðardyr Laugar þar sem fatlaðra merki er, þar var hjólið mitt og hafði einhver grallari fært það. Svona eru menn nú uppátækjasamir og spaugsamir á mánudegi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins.

Ritari heldur á vit ævintýranna í útlöndum og hleypur að líkendum ekki fyrr en á laugardag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl veriði,

Ég bý í nágrenninu og langar að vera með í hlaupaklúbb. Ég er 27, í engu sérstöku hlaupaformi en kemst vonandi í ágætan gír með tímanum. Hvernig er það, eru allir velkomnir?, yrði ég í "yngri kantinum" kannski? eða sú eina sem snarast ekki auðveldlega langan hring? Ef öll svörin eru jákvæð þá vil ég nú samt endilega mæta. Kv. Vesturbæjarstúlkan

ein í nágrenninu (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 16:01

2 identicon

Vertu bara velkomin, Vesturbæjarstúlka. Það eru allir í yngri kantinum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband