När Fantomen rör på sig står blixten stilla

Hellingur af fólki mættur til hlaups á miðvikudegi. Samantekin ráð hjá sumum um að hlaupa langt. Það voru Ágúst, Flosi, blómasalinn og ritarinn. Ekki styttra en Stíbbla var sagt. Aðrir ætluðu Þriggjabrúa vaxandi - og enn aðrir vafalaust eitthvað styttra. Lagt upp rólega. Hjá Skítastöð (Drulludælu) mátti fara að bæta í hraðann, en langhundarnir áttu ekki að bæta í hraðann fyrr en þeir væru hálfnaðir.

Allt gekk þetta nú vel, en við Nauthólsvík heyrðist ægilegur hávaði. Þá blandaði skyndilega Benzinn sér í hlaupið, en hafði ekki sést við upphaf þess. Þarna var hann mættur, þessi farlama maður, og hljóp eins og herforingi, milli þess sem hann jós svívirðingum yfir aðra hlaupara. Er komið var á Ristru Flanir og eftir Lúpínuvelli varð sú breyting á afstöðu manna að Jörundur kom æðandi fram úr okkur blómasalanum og Benzinum, leit hvorki til hægri né vinstri, og anzaði ekki áköllum okkar. Þetta gat aðeins endað illa.

Um þetta leyti þurfti ritari að létta á sér og missti við það af félögum sínum. Ekki náði hann þeim fyrr en við Víkingsvöll, þar biðu prófessorinn og blómasalinn, við fórum Goldfinger og brekkuna yndislegu sem þeirri leið tilheyrir. Þaðan um Mjódd og upp að Stíbblu. Líðan allgóð og hraði þokkalegur. Þó átti hann eftir að aukast. Ágúst hefur þann háttinn á að teyma mann sem allra lengst út úr borginni, gefa þá í og skilja mann eftir. Þetta gerði hann hér líka. Hann hvarf sjónum og bómasalinn með honum, ég var einn í myrkrinu í Árbænum. Er ég kom niður að Breiðholtsbraut ákvað ég að snúa á þá og fara Stokk  frekar en Fossvog. Tók þétting frá Vodafone-höll og út að Háskóla. Kom á  Plan um svipað leyti og Ágúst, hann varð mjög hissa.

Enn hissari varð blómasalinn, því að hann kom á eftir mér. Hann spurði hverju þetta sætti. Ég svaraði: "Einar minn, hefurðu ekki heyrt gamla, sænska djungelordspråket - när Fantomen rör på sig, står blixten stilla. Þegar Skuggi hreyfir sig stendur þruman kyrr." Með þessu gaf ég í skyn að ég hefði í reynd farið fram úr þeim á leiðinni. En viðurkenndi svo að ég hefði "stytt" - ef styttingu er hægt að kalla. Þeir fóru sumsé fulla 22 km, ég eitthvað styttra. Bjarni og Jörundur fóru 14, Þriggjabrúa með lengingu um Hljómskálagarð. Ekki þori ég að spá í hvað aðrir gerðu. Af þessari ástæðu var vigtin hagstæð í morgun, fimmtudag, og fer bara batnandi.

Næst hlaupið föstudag kl. 16:30.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband