Erfiði óþekkt

Í tilefni af stórkostlegum hjólasigri Einars blómasala á meginlandi Evrópu í gær var blásið til hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og voru allir helstu vinir hans í þeim hópi mættir stundvíslega 9:15 - Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur og Ólafur skrifari. 15 stiga hiti, logn, heiðskírt, er hægt að biðja um meira? Einar hafði lagt að baki 1200 km á 6 dögum og var það mikil þolraun þegar hiti fór suma daga í 40 gráður. En sem betur fer hafði hann nóg að bíta og brenna á leiðinni, sem er fyrir öllu, og léttist hann einungis um 1 kílógramm á þessari 1200 kílómetra löngu leið. 

Jæja, við vinirnir vorum sumsé mættir og stefndi í afbragðsgott hlaup, slíkt var kappið og metnaðurinn. Farið rólega út svo að við byrjuðum ekki á að sprengja okkur. Ég sá ástæðu til að leiðrétta þann misskilning frænda míns að á Restaurant IKEA væru serveraðar “Swedish meatballs” eins og hann hefur oft komið inn á í hlaupum. Þær eru ekki sænskar frekar en belja! Þær eru búnar til úr 100% íslensku kjötfarsi, ekki nautahakki eins og ekta sænskar kjötbollur eru gerðar úr. Færist það hér með til bókar.

Nú var það skrifari sem hélt ádíens langleiðina inn í Nauthólsvík, var m.a. sagt frá heldur snautlegu hlaupi í gær þegar taka átti 69 með stæl. Hlaup gekk að óskum framan af og samkvæmt áætlun inn að Víkingsheimili, en þá er sem allur vindur sé úr skrifara. Minnir hann meira á ítalska eða tékkneska bíldruslu en íslenskan hlaupagarp. Hjartsláttur mikill, svimi fyrir höfði og almennur slappleiki. Varð nú að fara fótgangandi langa speli, og raunar megnið af leiðinni til Laugar. Datt manni einna helst í hug að næringarleysi af einhverju tagi byggi að baki. Hlaup dagsins gekk hins vegar vandræðalaust og var sem nýr maður hlypi. 

Eitt og annað kom til umræðu, m.a. yfirtaka Víkings á Safamýrarsvæði Frams og kennslumál Reykjavíkur Lærða Skóla, húsnæðismál æskunnar og gistimöguleikar á Siglufirði. Enn fremur lagt á ráðin um hlaup í Hrútafirði í lok mánaðarins. Búið að laga tröppur Samtaka Vorra við Veðurstofuhálendi svo til fyrirmyndar er.

Pottur afar vel mannaður við komu til baka. Þar var landsliðsþjálfarinn og kona hans, Einar Dalakútur, Mímir, Dóra, Margrét, Jörundur auk hlaupara. Fyrrgreind umfjöllunarefni hlaups fóru í endurvinnslu, en þar kom að Formaður horfði á Guðna og spurði hvort þeir ættu ekki að fjölmenna á leik FH og Víkings á mánudag. Guðni horfði þá á eiginkonu sína og töldu sumir sig merkja ákveðna örvæntingu í svip hans og jafnvel beiðni um hjálp við að komast hjá þessari ferð á völlinn. Það gæti líka hafa verið misskilningur. Ekki var ljóst hver niðurstaðan var af þessari ráðagerð, en hitt vitum vér að í hlaupi dagsins var ekkert rætt um Vilhjálm Bjarnason.


Bloggfærslur 7. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband