Prófessor með kjánaprik

Hann var eins og lítill drengur sem eignast eftirsótt leikfang, prófessorinn með kjánaprikið, sem einnig er kallað selfie-stick. Festi símann í græjuna og beindi henni í allar áttir, myndaði alla hlaupara dagsins í bak og fyrir og talaði inn á upptökuna, en þessir voru: Jóhanna, Irma, Benz, Skrifari og téður Fróði. 

Við hlupum af stað í rigningarúða og prófessorinn myndaði á meðan. “Hér kem ég hlaupandi. Hér hlaupa Bjarni og Skrifari. Hér hleyp ég fram úr Bjarna og Skrifara.” Og trúlega hefur hann sagt eitthvað álíka gáfulegt þegar hann hljóp fram úr Jóhönnu og Irmu, ef hann náði því þá. 

Það var hefðbundinn föstudagur og við Bjarni héldum hópinn af gömlum vana. Ég sagði honum söguna af Pétri pokapresti, holunni á planinu hans sem hann fullyrti að hann Hjálmar okkar hefði grafið, sandfyllingu Borgarinnar og síðar steypu og áletrun prestsins í blauta steypuna. Það var falleg saga. 

Hlaup gekk vel enda þótt við hefðum gengið óþarflega mikið, en þannig er það bara suma daga. Fórum Sæbraut og hjá Hörpu og um Ægisgötu tilbaka, sáum René akandi en ekki hlaupandi. 

Í pott komu Kári og Gunný og Ágúst sagði þeim upp alla söguna af rassbeinsmarinu, lækningunni og öllum stuðningnum og hvatningunni sem hann fékk frá “vinum” sínum á feisbúkk, einkum Jörundi sem getur ekki með nokkru móti gleymt því þegar Gústa var mokað aftur í skátabifreið eftir 9 hlaupna km af 10 fyrirhuguðum. 

Ágúst færði sterk og sannfærandi rök fyrir því að Fyrsti í heimahúsi væri eiginlega ekki það sama og Fyrsti og því mætti líta svo á að við ættum enn inni Fyrsta Föstudag maímánaðar. Því var stefnan sett á Ljónið, en ekki sá Skrifari þá kumpána þar.

Hefðbundinn sunnudagur næst kl. 9:10, á sama tíma og blómasalinn þreytir maraþon í Køben. Sendum góða strauma!


Bloggfærslur 11. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband