Enginn afsláttur - engin miskunn

Í Hlaupasamtökum sem til hafa valist þróttmiklir hlauparar, þéttir í lund, uppfullir af æskufjöri eins og kálfar á vori, er ekki gefinn neinn afsláttur af hlaupum, sérílagi á dögum sem þessum þegar sólin skín og hægur andvari gælir við kinn. Við vorum mættir frændur, Ó. Þorsteinsson og skrifari, við Vesturbæjarlaug kl. 9:10 með ásetning um hlaup sem boðað var til á Kjaftaklöpp. Aðrir ekki mættir og kom það okkur spánskt fyrir sjónir. Fórum raunar einnig á Páskadag, þá var með okkur Ó. Gunnarsson. Farið hefðbundið báða dagana.

Þegar rætt var um utanvegahlaup prófessors Fróða spurði Ólafur:”Er hann farinn út um þúfur?” Það er þessi hægláta kímni sem engan meiðir sem einkennir gott hlaup. 

En í dag varð sumsé á vegi okkar frænda kona nokkur í Nauthólsvík sem búin var til hlaupa og beið eftir félögum sínum. Hún féllst á að taka mynd af okkur og var greinilega mjög impóneruð yfir myndefninu, svo meira sé ekki sagt. 

Við fórum hefðbundna porsjón á rólegum takti og áttum alveg eins von á að blómasali kæmi á fullri ferð á hjólfáki sínum, en ekki sást reykurinn af honum. Né heldur voru fastir sunnudags hlauparar mættir, þeir Þorvaldur og Bjarni. Nú er spurt hvort ekki sé tímabært að menn hristi af sér slyðruorðið, dusti rykið af hlaupaskónum og geri sig klára fyrir átök sumarsins með léttu skokki í kátra sveina- og (eventúellt) meyjaflokki. Margt er framundan, m.a. Two oceans hlaup í Suður-Afríku á næsta ári. Meira um það seinna.


Þriggjabrúa á laugardegi

 

Er ástæða til að hafa orð á því þótt skór séu reimaðir á fætur og einn hlaupari tölti sosum  eins og einn Þriggjabrúa um Boggabrekku og alles - ALEINN á laugardagsmorgni? Ég veit það ekki. Jæja, skrifari var alltént einn á ferð í austanbelgingi og ausandi rigningu  í morgun og tók hringinn með bravúr. Fór austur yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut í fyrsta skipti í MJÖG langan tíma. Blómasali staddur í Barcelona og Bjarni trúlega sofandi á sitt græna eyra. Öðrum hlaupurum ekki til að dreifa, þótt sést hafi til Frikka og Súsanna dúkkað upp hlaupin sem nemur 22 km í Laug.

En erindið var nú eiginlega meira að segja frá Magnúsi, þeim grallaraspóa og galgenvogel, þar sem hann stendur í sturtunni í Útiklefa og skrifari fer að segja honum frá þeim fjölfróða mannvini, próf. dr. Winston O´Boogie, sem sett hefur fram þá byltingarkenndu tilgátu að geðveiki sé fyrsta merki um flösu. Magnús var fljótur að botna þá tilgátu með því að benda á að sá sem súturinn sækir heim ætti frekar að kaupa sér flösusjampó en panta tíma hjá geðlækni.

Jæja, það var nú það. Formaður til Lífstíðar hefur af mikilli visku sinni upplýst og kunngjört að hér eftir og fram að veturnóttum verði hlaupið frá Vesturbæjarlaug á sunnudagsmorgnum kl 9:10. Hafa skal það til athugunar og eftirbreytni.

Í gvuðs friði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband