Hönd í hönd

Ekki var aumingjum út sigandi í veðurblíðunni í dag, 6 stiga frosti, sól, stillu. Enda mættu aðeins hörðustu hlauparar Samtaka Vorra: Rúna, skrifari, blómasalinn, Benzinn og Baldur Tumi. Helmut einn mættur af göngumönnum. Benzinn bara rólegur þegar mætt var í Útiklefa, en var fljótur að ná sér á strik þegar farið var að ræða um pálmatrén hans Hjálmars okkar. Ég spurði: hver man núna eftir að ræða um tölvupósta? 

Jæja, þegar Einar var mættur var lagt í hann. Baldur Tumi skildi okkur fljótlega eftir, og Einar og Rúna þurftu eitthvað að ræða mikið saman. Við Bjarni fórum á undan þeim. Hvern hittum við á skíðum í Skerjafirði nema Flosa bróður! Í hvað er þessi hlaupahópur að breytast? Menn eru ýmist gangandi eða á skíðum þegar hlaup í vaskra sveina og meyja hópi er í boði.

Já, eitthvað var farið að nefna pálmatré og eftir miklar bollaleggingar og útreikninga var niðurstaðan sú að innflutningur á pálmatrjám og uppsetning fyrir litlar 160 milljónir væri óframkvæmanlegt og af því yrði aldrei. Ég spurði aftur í illkvittni hvort einhver myndi að ræða tölvupósta.

Það var í raun ekki hægt annað en njóta hlaupsins og veðurblíðunnar. Bjarni minntist á hlaupara sem hljóp einu sinni með okkur og hét Ágúst Kvaðrat eftir því sem Bjarna minnti. Líklega væri hann dauður því til hans hefði ekki spurst lengi. Svo var náttúrlega minnst á þorrablótið sem framundan er. 

Við hlupum út að Kringlumýrarbraut enda enginn aumingjaskapur í gangi hér. Nú brá svo við að einingin og samræmingin náði slíkum hæðum í tignun þeirra á Guði sínum Mammoni að þeir Einar og Bjarni gengu langar leiðir upp Suðurhlíð hönd í hönd. Það var ógnvænleg sjón. 

Svo var bara að skella sér niður Stokkinn og klára hlaup á góðu róli. En mikið uppskárum við Einar af skömmum og svívirðingum hjá Bjarna þegar hann kom tilbaka að sækja okkur. Vorum kallaðir aumingjar og ellibelgir og ég veit ekki hvað. En það var góð tilfinning að koma tilbaka og við vorum ánægðir með okkur sjálfa. 


Riddarar götunnar

Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem fara um götur og stíga eru upp til hópa hjálpsamir og velmeinandi, með fáeinum undantekningum. Meira um það seinna. 

Hlaup hafa verið þreytt sleitulaust og án uppihalds alla lögboðna hlaupadaga undanfarna viku. Færð hefur verið sæmileg og veðurskilyrði sömuleiðis þokkaleg svo halda mátti úti hlaupi. Nú er spurningin að halda sér á hreyfingu, þreyja þorrann og góuna og koma svo sæmilegur undan vetri og fara að taka á því á vormánuðum. 

Það eru þessir sömu einstaklingar sem eru að göslast þetta viku eftir viku: Einar blómasali, Bjarni Benz, Ólafur skrifari og Ólafur H. Gunnarsson. Ó. Þorsteinsson og Þ. Gunnlaugsson á sunnudögum. 

Jæja, það voru þessir fjóru hlauparar á föstudaginn eð var og mikil umræða spannst um Klausturmál. Bjarni, sem hefur alla sína visku úr Útvarpi Sögu, sagði alveg ljóst að einhver lesbískur feministi hefði bruggað Gunnari Braga ólyfjan svo á hann seig óminnishegri og fékk Frakka sínum rænt. Nú þyrfti Gunnar greyið að spandera stórum summum í sálfræðinga til að komast að því hver hefði öskrað á upptökunni. Við hinir sáum í hendi okkar að þetta væri allt eitt stórt samsæri gegn Simma, runnið undan rifjum forseta Alþingis. Á þessa lund voru nú umræðurnar í hlaupi föstudagsins þar sem við runnum hefðbundið skeið og Bjarni bara rólegur til þess að gera. Birtan heldur áfram innreið sinni.

Hefðbundið inn í Nauthólsvík og upp skógarstígana snæviþakta. Bjarni fremstur, léttur eins og messudrengur, við hinir þungir, hægir og þreyttir. En þegar komið var í Hlíðar birtist hið rétta innræti manna. Þar sat fólksbifreið föst í snjó og kona æddi fram og tilbaka eftir götunni í leit að hjálp. Bjarni alvitlaus, kominn á undan okkur, grenjandi hinum megin við Miklubraut: “Áfram, áfram!”, svo að konan varð mjög skelkuð. Við þrír buðum fram aðstoð okkar. “Eruð þér í vanda stödd, fröken? Megum við hjálpa yður?” spurðum við. Svo var tekið til við að ýta, en bíllinn sat sem fastastur og rúllaði bara fram og aftur. Það var ekki fyrr en gamli ketilsmiðurinn náði almennilegu taki undir bílnum að hann gat lyft bílnum upp og þá losnaði hann. Konan var full þakklætis og sá þarna að enn eru til heiðursmenn á Íslandi. Bjarni stóð hins vegar gapandi af hneykslan yfir svona vitleysisgangi í miðju hlaupi.

Við áfram Klambra og Rauðarárstíg þar sem Bjarni benti okkur á listaverk með beru kvenfólki sem stillt hafði verið út í glugga Gallerís Foldar til þess eins að ögra velsæmiskennd allra betri borgara. Nú var farið niður á Sæbraut og var það mikill léttir fyrir okkur af tveimur ástæðum: Bjarni mátti öskra eins og naut án þess það hreyfði við okkur og við losnuðum við að fara á svigi milli túrista. Fram hjá Hörpu og þá leið upp Ægisgötu og tilbaka með viðkomu og krossmarki hjá Jesú bróður. Nú vitum við fyrir víst að vorið er á næsta leiti.

Jæja, þarna voru sumsé Denni og Sæmi mættir eftir sukksama ferð um Miðbæinn. Þá barst í tal Þorrablót Samtaka Vorra og munu félagsmenn fljótlega fá tilkynningu um stað og stund. En næst verður hlaupið á morgun, sunnudag, kl 10:10, og trúum vér að þátttaka verði góð. 

 


Ótrúlegt hreint út sagt

Ja, það fer ekki milli mála að vorið er á næsta leiti. Birtan sem við finnum svo átakanlega fyrir nú um miðjan janúar og hitinn, maður minn! Hitinn! 6 stig um miðjan vetur. Ef þetta er ekki ákall um hlaup þá þekki ég ekki hugtakið. Enda voru valinkunnir heiðursmenn mættir til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi kl 16:30. Það voru Einar blómasali, Ólafur Gunn og Ólafur skrifari. Svo voru Jörundur, Helmut og Biggi mættir til göngu. Jörundur önugur og afundinn sem aldrei fyrr, enda erfitt að þurfa að hætta að hlaupa og fara að ganga eins og hvert annað gamalmenni. Þarna voru líka Denni og Sæmi, en þeir hafa óljósa agendu og hlaup þeirra fara með þá um aðrar slóðir en okkar hinna og enda oftast á einhverjum bar í Miðbænum.

Það var lagt upp í einmunablíðu. Skrifari þreyttur að lokinni erfiðri viku í Stjórnarráðinu, en lét á það reyna hvort hann gæti ekki klárað eitt aumingjalegt hlaup. Fór svo að lokum að það var hann sem dró þá hina áfram og hvatti til afreka. Við ræddum um vinnuskilyrði hjá hinu opinbera og þau örlög sem búin eru síðmiðaldra körlum sem rekast illa innan um venjulegt fólk. Lífeyrismál bar á góma og umræður karla á opinberum stöðum sem hljóðritaðar eru með ólöglegum hætti í annarlegum og ólögmætum tilgangi. Þegar komið var að Bragga í Nauthólsvík tókum við eftir myndaupptökuvél við skúrbygginguna sem hann Maggi notar gjarnan á sunnudagshlaupum til þess að létta á sér. Við sáum í hendi okkar að við yrðum að úða málningu fyrir linsuna á vélinni svo að Magnús okkar geti haldið venjum sínum. 

Það var slabb og hálka víða á stígum sem tafði fyrir, en er komið var að Öskjuhlíð var enn bjart og engin þörf á ennisljósi, sem var breyting frá síðasta föstudegi. Við fórum upp skógarstígana og upp glerhála brekkuna, þaðan hjá kirkjugarði, undir Bústaðaveg og svo upp Tröppurnar okkar. Veðurstofa, Saung- og Skák, Hlíðar, Klambrar, Laugavegur. Við ræddum nýlegar byggingar á Siglufirði og möguleika sem þeim tengjast til sameiginlegrar útiveru og dvalar á Norðurlandi á sumri komanda, með tilheyrandi gönguferðum og skemmtan. Komum kátir og sprækir tilbaka eftir hlaup og vorum bara ánægðir með okkur.

Aldeilis ótrúlegt mannval er komið var tilbaka. Sæmi og Denni sátu á snakki við Dani er komið var í pott og báru menn kennsl á gamla Hagaskóladönsku þar. Fljótlega kom Bjössi kokkur og loks Benzinn í pott og mátti hann þá kallast fullmannaður. Kannaðir möguleikar á Þorrablóti Samtaka Vorra. Næst hlaup á sunnudag.


Heilabrot

Menn hafa verið að velta því fyrir sér af hverju Benzinn er svona snakillur í hlaupum. Hefur þetta einna helst bitnað á okkur vinum hans sem enn nennum að drattast með honum fetið um stígana. Nú maðurinn er alltaf að hlusta á Útvarp Sögu og mætir svo vel nestaður fordómum og hvers kyns bulli úr þessum fjölmiðli í hlaupin til okkar. Því var það að blómasalinn sagði við hann nú síðast: “Bjarni, hættu að hlusta á Útvarp Sögu.” Sjáum til hvort þessi lækning virkar.

En nú að hlaupi dagsins. Það var fagur dagur, heiðskír sunnudagsmorgunn, þótt napurt væri. Tveir þekktir hlauparar höfðu lýst yfir ásetningi um hlaup, blómasali og Benz. Hvorugur mætti. Hins vegar voru mættir tveir staðfastir hlauparar, þeir Þorvaldur Gunnlaugsson og skrifari. Þeir fóru fetið í fullkominni eindrægni og æðruleysi. Það var Hlíðarfótur hjá þeim fyrrnefnda, en full porsjón á sunnudegi hjá skrifara. Rætt um heilsufar og lífeyrismál.

Það var býsna ljúft að renna hefðbundið skeið á þessum fallega degi, þótt einmanalegt væri. Fyrir vikið gekk þetta hraðar fyrir sig, enda ekki verið að stoppa á völdum stöðum til að kjafta og leggja fyrir spurningar. 

Í Potti voru valinkunnir gáfumenn. Ó. Þorsteinsson bar fyrir sig að e-r Gugga hefði látið hann hafa hassperur og því gæti hann ómögulega hlaupið á sunnudegi. Rætt um dúfnarækt fyrr á tímum og allt aftur í hið forna Rómarveldi. Þar voru Einar Gunnar, Mímir, Guðni Kjartans og frú, og kennari einn margfróður úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Og því var rætt um skólaskýrslur þeirrar merku stofnunar og einkunnagjöf fyrr og nú. 

Nú er að sjá hvort menn hristi af sér slyðruorðið og mæti til hlaups á mánudegi.


Frásögur af nýlegum afrekum

Skrifari hefur vanrækt pistlaskrif upp á síðkastið, en hlaup hafa verið iðkuð af kappi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í haust og vetur. Einnig hefur verið stofnuð göngudeild fyrir hlaupalúna og eldri félagsmenn sem ekki treysta sér til að hlaupa. Hittist hún á sömu tímum og hlauparar. Félagslíf stendur með miklum blóma og er skemmst að minnast jólaboðs hjá honum Jörundi 15. desember þar sem um 30 manns mættu og gerðu jólamatnum góð skil.

Hlauparar úr hópi vorum tóku þátt í kirkjuhlaupi TKS á annan daginn og sumir mættu einnig í Gamlárshlaup ÍR í arfavitlausu veðri. En reglubundin hlaup halda áfram. Fámennur hópur fór daginn fyrir Gamlár, þegar Einar fékk í magann og varð að snúa við, 2. jan og svo í gær, 4. janúar. Þetta eru skrifari, Einar blómasali, Bjarni Benz og svo ýmist Ólafur Gunn eða Ólafur Þorsteins. Einnig hefur sést til Þorvaldar Gunnlaugs og Inga. Tobba og Rúna fóru með okkur á miðvikudag og Baldur Tumi einnig. Svo að menn sjá hvílík gróska er í starfi voru. Enda ekki hægt að kvarta yfir veðrinu, 10 stiga hiti dag eftir dag og snjólaust. Með gönguhópi fara Helmut, Maggi, Jörundur og Flosi. En til próf Fróða sést ekki, stundum dúkkar veðurbarið andlit hans á Fésbók þar sem hann kveðst hafa hlaupið upp að Steini, en lætur annars asfalt og jafnsléttu eiga sig. Og þaðan af síður að menn haldi upp á Fyrsta.

Verst er náttmyrkrið á þessum árstíma því að sumir menn eru náttblindir og rata illa um skógarstígana í Öskjuhlíðinni í myrkri. Hér má hafa not af ennisljósum sem sumir eiga. En nú fer sól hækkandi á lofti og verðum við hlauparar varir við það þegar í lok mánaðarins. 

En það var sum sé hlaupið, og gengið, í gær, föstudag. Helmut var einn, en hlauparar voru Einar blómasali, Bjarni, Óli Gunn og skrifari. Til þeirra sást, Denna skransala og Sæma, þar sem þeir fetuðu sig áfram upp Hofsvallagötu í átt að brynningarstöðunum, löngu áður en eiginlegt hlaup hófst. Við hinir fórum okkar hefðbundnu leið niður á Ægisíðu. Hittum Magga á leiðinni með hund í taumi sem hafði gert sín stykki á gangstéttina og Maggi benti stoltur á afurðina. Það var stífur mótvindur út í Nauthólsvík og varla að það heyrðist mannsins mál á leiðinni. Líklega var það þess vegna sem Benzinn sá sig knúinn að hækka róminn. Eða var það vegna þess að þegar hann sýndi mér nýju Asics Kayano hlaupaskóna sína sagði ég þá henta fyrir starfsemi Gönguklúbbs Sjálfstæðiskvenna á Seltjarnarnesi? Bjarni var ekki sáttur við þá einkunn.

Það varð strax bærilegra í Öskjuhlíð og fórum við sem leið lá undir Bústaðaveg og gerðum úttekt á tröppunum góðu. Hugsuðum hlýlega til Dags borgarstjóra og hans Hjálmars okkar sem ávallt bera hag okkar fyrir brjósti við endurnýjun samgöngumannvirkja. Svo var farið þetta hefðbundið um Hlíðar og Klambra og spannst mikil umræða um kjör ríkisstarfsmanna. Laugavegur með látum og öskrum. Menn signdu sig á Landakotshæð og héldu til Potts. Ekki sást reykurinn af þeim Helmut, Denna eða Sæma. Spurning hvort Fyrsti Föstudagur hafi verið tekinn fullsnemma?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband