Prófessor með kjánaprik

Hann var eins og lítill drengur sem eignast eftirsótt leikfang, prófessorinn með kjánaprikið, sem einnig er kallað selfie-stick. Festi símann í græjuna og beindi henni í allar áttir, myndaði alla hlaupara dagsins í bak og fyrir og talaði inn á upptökuna, en þessir voru: Jóhanna, Irma, Benz, Skrifari og téður Fróði. 

Við hlupum af stað í rigningarúða og prófessorinn myndaði á meðan. “Hér kem ég hlaupandi. Hér hlaupa Bjarni og Skrifari. Hér hleyp ég fram úr Bjarna og Skrifara.” Og trúlega hefur hann sagt eitthvað álíka gáfulegt þegar hann hljóp fram úr Jóhönnu og Irmu, ef hann náði því þá. 

Það var hefðbundinn föstudagur og við Bjarni héldum hópinn af gömlum vana. Ég sagði honum söguna af Pétri pokapresti, holunni á planinu hans sem hann fullyrti að hann Hjálmar okkar hefði grafið, sandfyllingu Borgarinnar og síðar steypu og áletrun prestsins í blauta steypuna. Það var falleg saga. 

Hlaup gekk vel enda þótt við hefðum gengið óþarflega mikið, en þannig er það bara suma daga. Fórum Sæbraut og hjá Hörpu og um Ægisgötu tilbaka, sáum René akandi en ekki hlaupandi. 

Í pott komu Kári og Gunný og Ágúst sagði þeim upp alla söguna af rassbeinsmarinu, lækningunni og öllum stuðningnum og hvatningunni sem hann fékk frá “vinum” sínum á feisbúkk, einkum Jörundi sem getur ekki með nokkru móti gleymt því þegar Gústa var mokað aftur í skátabifreið eftir 9 hlaupna km af 10 fyrirhuguðum. 

Ágúst færði sterk og sannfærandi rök fyrir því að Fyrsti í heimahúsi væri eiginlega ekki það sama og Fyrsti og því mætti líta svo á að við ættum enn inni Fyrsta Föstudag maímánaðar. Því var stefnan sett á Ljónið, en ekki sá Skrifari þá kumpána þar.

Hefðbundinn sunnudagur næst kl. 9:10, á sama tíma og blómasalinn þreytir maraþon í Køben. Sendum góða strauma!


Hlátur

”Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn.

Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar,”

orti hið ástsæla skáld Vesturbæjarins, Tómás Guðmundsson. Og víst gullu við hlátrasköll um Vesturbæinn í gær, á hlaupadegi hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Einar blómasali hló hæst, hinir gátu þó hætt. Tilefnið var heiðvirð tilraun hjá tveimur hlaupurum, Magnúsi tannlækni og Ólafi skrifara, til þess að þreyta hefðbundið hlaup á miðvikudegi. Þegar þeim mætti öskublindbylur beint frá Norðurpólnum þá þegar er komið var niður á Ægisíðu sáu þeir að það var engin glóra að reyna hlaup illa búnir og hurfu tilbaka.

Þetta varð þeim Einari blómasala, Ólafi heilbrigða og Guðmundi Löve að yrkisefni. Þeir settu saman stuttan leikþátt sem fluttur var í miðju hlaupi þessara nefndu hlaupara og hófst að lokinni tilraun okkar Magnúsar og við gerðir sem afskræmislegastir og aumkunarverðastir þar sem við brutumst gegnum smáél og örlitla golu og sammæltumst um að hverfa til Laugar. Og svo hristust hin nýfundnu leikskáld ákafliga yfir eigin fyndni. Einar geislaði sem Vesturbæjarsólin er hann kom til Laugar að loknu hlaupi og ætlaði aldrei, að sögn vitna, að geta hætt að hlæja.

Jæja, er nú skórinn kominn á hinn fótinn, ef þið takið meiningu mína! Skrifari mætti af nýju til Laugar á fimmtudegi, staðráðinn í að hefna fyrir sneypuför gærdagsins, og lagði upp í einkahlaup kl. 16:20. Það var stífur mótvindur og kalt í veðri, en ég lét það ekki stöðva mig, enda útrústaður með balaklövu í þetta skiptið og aukabol. Það var ekkert sólskin líkt og í gær, enda sólskinshlaupurum ekki út sigandi. Á sínum tíma, eftir Nauthólsvík brast á með glórulausri hryðju sem ætlaði engan endi að taka. En það stöðvaði ekki þennan hlaupara. Hann hljóp í einni beit frá Laug, um Nauthólsvík, Suðurhlíð, hjá Perlu og tilbaka til Laugar án þess að stoppa og án þess að blása úr nös. Fyrsta heila meðallanga hlaupið í endurkomu, eftir innan við tvo mánuði. 

Hlæið að því, ormarnir ykkar! 

Í gvuðs friði.

 


Stutt

Þegar við Magnús tannlæknir hlupum í dag af stað frá Laug brast á með snjóstormi og sá ekki út úr augum og horfur á mannskaða með þessu framhaldi. Borðleggjandi að slá hlaupið af. Þessi pistill er þegar orðinn lengri en hlaup dagsins svo að mál er að linni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband