Að kunna á klukku

Fjórir vaskir sveinar mættir til hlaupa á sunnudagsmorgni kl. 9:10. Þetta voru gamli barnakennarinn, barnatannlæknirinn, blómasalinn og skrifari. Það blés hressilega, en við létum það ekki stöðva okkur, og það enda þótt skrifari væri vettlingalaus. Annar vettlingurinn var talinn vera í Kópavogi og bauðst Magnús til að kippa honum með næst.

Töltum af stað á rólegu nótunum og fórum okkur í engu óðslega. Rætt um bíla og verð á bílum. Sömuleiðis viðhald bíla og kostnað við það. Það var jafnvel gengið á völdum stöðum og var engu minni áreynsla en að hlaupa. Farinn Hlíðarfótur og tókst bara bærilega, þeir hinir eitthvað á undan okkur Magnúsi.

Svo komu hinar nöktu staðreyndir í ljós er komið var til Laugar: fjórir piltar hlaupa kl. 9:10, Ó. Þorsteinsson fer kl. 10:00 og Þorvaldur Gunnlaugsson kl. 10:10! Hér kynni einhverjum góðum manni að detta í hug að vantaði samræmingu, ellegar að eitthvað sé ábótavant þekkingu ónefndra manna á gangverki tímans. Er hér með lagt til að framvegis verði samræmis gætt og menn hlaupi þá saman á fyrirfram útgefnum og vottuðum tíma.

Jæja, við vorum rekin úr Örlygshöfn sakir klórmagns og var þá farið í þann stóra. Þar gengur illa að halda uppi samræðum, en mætt voru Formaður til Lífstíðar, Mímir, Þorbjörg, Stefán verkfræðingur, Margrét Ásgeirsdóttir barnakennari í Melaskóla Íslands, skrifari og Þ. Gunnlaugsson. Rætt um heilsufar fjarstaddra félaga og framtíðarhorfur. 

Góður hlaupamorgun að baki og nú verður aldeilis tekið á því við að koma skrifara í skikkanlegt hlaupaform.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband