Full porsjón

Mættir sem fyrr á sunnudagsmorgni Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Þorvaldur Gunnlaugsson og Ólafur skrifari. Veður milt, en sólarlaust er hlaup hefst að loknum fyrstu bollaleggingum í Brottfararsal. Til umræðu fyrirhuguð sameining Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla, þeirrar merku og öflugu menntastofnunar þeirra Gísla og Helmuts. Einnig merkilegt afmælishóf á Sal Reykjavíkur Lærða Skóla sl. laugardag. 

Lagt upp og bryddaði Þorvaldur upp á þeirri nýbreytni að fara malarstíginn austan við Laug í stað þess að fara eftir gangstétt eins og hefðin býður. Setti að okkur hinum nokkurn ugg við svo afgerandi frávik frá viðtekinni venju. 

Skrifari að fara í annað skiptið í hlaup eftir átta mánaða hvíld og hlustaði því venju fremur eftir hljóðum og merkjasendingum þessa þunga skrokks. Hlaupurum sem koma tilbaka eftir fjarvistir er vel tekið í Hlaupasamtökunum, það er ekki híað og bent á þá eða þeir hafðir að athlægi, háði og spotti. Þeir eru hvattir áfram og studdir góðum orðum. Ekki var farið hratt yfir, heldur staplað áfram í takt við getu skrifara, jafnvel gengið. 

Nú skyldi stefnan sett á Skítastöð og vonir bundnar við að lukkast mætti enn betur en seinast að ljúka góðu hlaupi. Þegar þangað kom blasti hins vegar við að engin sérstök ástæða var til að láta staðar numið þar, enda blasti Nauthólsvíkin við með björtum fyrirheitum í allri sinni dýrð. Þeir hinir voru lítillega á undan skrifara, en þó ekki svo mikið að vandkvæðum væri bundið að draga þá uppi með góðum spretti.

Þegar komið var í Nauthólsvík þurfti að ákveða framhaldið og nefndi skrifari að hann myndi beygja af og fara Hlíðarfót. Formaður tók það ekki í mál og kvað upp úr með það að úr því komið væri í Nauthólsvík lægi beinast við að halda áfram í Kirkjugarð. Svo var gert. Minntist skrifari orða Kirkjuráðsmanns Kristinssonar er hann sagði eitt sinn að það gilti einu þótt haldið yrði í humátt eftir Formanni eftir Nauthólsvík því að hann myndi hvort eð er eyða restinni af hlaupinu í göngu og skraf.

Við fengum skýrslu af ágætu starfi Hollvinasamtaka Menntaskólans í Reykjavík og var m.a. rætt um mönnun stjórnar þeirra merku samtaka. Hlaupið hefðbundið um Kirkjugarð, Veðurstofuhálendið, Klambra og alla leið niður á Sæbraut. Þar var furðu lítið gengið og talað, en tekinn nánast samfelldur sprettur út að Kalkofnsvegi. Gengið og hlaupið um Miðbæ, gengið upp Túngötu en svo skokkað tilbaka til Laugar. Skrifari þreyttur og sveittur eftir gott hlaup, en að sama skapi ánægður með að vera kominn svo fljótt í hlaupagírinn.

Hittum Unni í Móttökusal og lýsti hún mikilli ánægju með afrek dagsins. Í Potti voru próf. dr. emeritus Einar Gunnar, Mímir, Dóra, Þorbjörg og Stefán verkfræðingur. Voru umræður allar upplýsandi og fræðandi með bílnúmerum og persónufræði. Bjart framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband