Ný stétt hlaupara

Stofnuð hefur verið ný deild innan Hlaupasamtaka Lýðveldisins, DASH, Deild hinna Algjörlega forSmáðu Hlaupara. Skrifari er fyrsti og eini meðlimur þeirrar deildar. Meira um það seinna.

Það var sumsé mætt til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudegi í sólbjörtu veðri, norðanátt og 18 stiga hita. Norðangjólan boðaði hálfkalsalegt hlaup og því voru sumir okkar skynsamir og klæddumst vel. Það voru mistök. Mættir voru: próf. dr. Ágúst, Flosi, Bjarni Benz, Helmut, skrifari, Ólafur hinn og Ragnar Hólm eftir langa fjarveru. Öll geymsluhólf í Brottfararsal voru upptekin og því varð skrifari að vera inni. Hann gerði þó vel vart við sig gagnvart hlaupurum í Sal og vænti þess að beðið væri eftir sér áður en lagt yrði í hann. Honum seinkaði nokkuð af þessum sökum, en þegar hann kom upp voru hlauparar að leggja í hann og virtust ekki hafa gert ráð fyrir að hafa hann með í hlaupi dagsins. Skrifari tók þessu ekki vel og var að vonum vonsvikinn yfir að ekki væri beðið eftir honum. Hann hugsaði félögum sínum þegjandi þörfina og taldi sig vera vitni að stofnun nýrrar deildar forsmáðra hlaupara og er þetta ný stefna í starfsemi Samtaka Vorra. Af meðfæddri hæversku og skynsemi hafði hann þó ekki orð á þessu með upphrópunum og umkvörtunum eins og sumir aðrir hlauparar hafa gjarnan í frammi þegar þeim finnst á sér brotið.

Skrifari laumaði sér orðalaust í hópinn og hljóp af yfirvegun og kurteisi niður á Ægisíðu og þá leið í austur. Með honum í för voru Benzinn og Helmut, aðrir voru á hraðferð og yfirgáfu okkur fljótlega. Við félagar ræddum m.a. um afrekshlaup félaga okkar Ágústs í Henglinum um sl. helgi. Bjarni lýsti fyrir okkur ástandi Ágústs í mánudagshlaupi þegar hann barmaði sér alla leið inn í Öskjuhlíð, en var bara brattur eftir það. Ekki var á Ágústi að sjá í dag að hann hefði lokið átakahlaupi um helgina, hann var sprækur eins og lækur og gaf hinum yngri mönnum ekkert eftir í vaskleik og vekurð.

Upphaflega ætlaði skrifari eingöngu að hlaupa út að Skítastöð og tilbaka, var eiginlega ekki að nenna þessu, en hjarnaði allur við af samtalinu við Helmut og Benz og setti stefnuna á Jósefínu. Norðangjólan datt niður á Ægisíðu og þar var ægilegur hiti og menn voru of mikið klæddir. Þetta gerði mönnum erfiðara fyrir að þreyta áreynslulítið hlaup. Þó rifu menn ekki klæði af sér enda vitað að á leiðinni myndi norðanbálið gera vart við sig.

Komið í Nauthólsvík og reynt að svala þorstanum af drykkjarfonti, en sprænan svo lítil að erfitt var að ná upp vatni. Það hvarflaði að skrifara að Borgaryfirvöld mættu sem best skrúfa fyrir vatnið og spara aura þannig, það er ekki nokkur leið að draga annað en loft upp í sig í þessum sprænum sem settar eru fyrir okkur hlaupara og göngufólk.

Skrifari lét sér nægja að fara Hlíðarfót, aðrir héldu eitthvað áfram, Bjarni fór Suðurhlíðar og mætti skrifara hjá Gvuðsmönnum. Saman töltum við vestur úr, en svo fór að Bjarni skildi skrifara eftir og tölti til Laugar einn síns liðs. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að skrifari þyrfti að herða æfingar sínar ef hann ætlaði að halda í við félaga Einar blómasala, sem hlypi eins og andsetinn í fjöllum Austurríkis þessa dagana.

Í Laug er nánast daglegur viðburður að laugar eða pottar séu lokaðir vegna klórskorts. Barnalaug lokuð og því hírast blessuð börnin í pottum. Örlygshöfnin lokuð og því varð að fara í Nýjapott og reyna að njóta hvíldar innan um híandi börn og æpandi mæður. Lítil hvíld í því. Dr. Jóhanna og Friedrich Kaufmann í Brottfararsal er komið var upp úr. 

Á morgun er svo Leggjabrjótur - og á föstudag er Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband